Yfirgnæfandi stuðningur við Vaðlaheiðargöng
- samkvæmt könnun sem Capacent hefur unnið fyrir Greiða leið ehf.
Að beiðni Greiðrar leiðar ehf. hefur Capacent unnið viðhorfskönnun meðal íbúa í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu og er meginniðurstaða hennar sú að 92% svarenda telja mikilvægt að gerð verði jarðgöng undir Vaðlaheiði. Þetta er afgerandi skoðun íbúa á svæðinu og verður að telja afar fátítt að svo viðamikið verkefni í samgöngumálum njóti svo víðtæks stuðnings almennings.
Í úrtaki könnunarinnar voru 2000 manns á aldrinum 17-75 ára. Spurt var: Hversu mikilvægt eða lítilvægt finnst þér fyrir Eyjafjarðarsvæðið og Þingeyjarsýslur að gera göng undir Vaðlaheiði? Könnunin leiddi í ljós að 76,3% töldu mjög mikilvægt að ráðast í þessa framkvæmd og 15,4% töldu það frekar mikilvægt. Um 8% svarenda svöruðu “hvorki né”, “frekar lítilvægt” eða “mjög lítilvægt” .
Meðal annarra niðurstaðna í könnuninni má nefna að mikill meirihluti svarenda taldi að ferðum milli Eyjafjarðar og Þingeyjarsýslna myndi fjölga með tilkomu Vaðlaheiðarganga.
Upphaf verkefnisins
Á árunum 2001 og 2002 hófst umræða á vettvangi Eyþings – sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum um hvort fýsilegt væri að hefja undirbúning að gerð Vaðlaheiðarganga og stofna félag um verkefnið. Sú varð niðurstaða nefndar á vegum Eyþings og í kjölfarið, nánar tiltekið 28. febrúar 2003, var félagið Greið leið ehf. stofnað með þátttöku allra sveitarfélaga á Norðurlandi eystra og nokkurra fyrirtækja. Tilgangur Greiðrar leiðar var og er að vinna að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í því felst m.a. að annast áætlanagerð, rannsóknir og samninga við ríki og fjárfesta auk þess að standa fyrir framkvæmdum og rekstri ganganna.
Undirbúningur
Á síðustu árum hefur markvisst verið unnið að undirbúningi að gerð Vaðlaheiðarganga. Fyrir liggja ítarlegar upplýsingar og skýrslur um verkefnið.
Allar þær rannsóknir sem eru að baki hafa leitt í ljós að Vaðlaheiðargöng eru þjóðhagslega arðsöm framkvæmd, tæknilega framkvæmanleg og hefði mikil og jákvæð samfélagsleg áhrif.
Skipulagsstofnun hefur kveðið upp úr um að göngin séu ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Frá byrjun hefur Greið leið upplýst samgönguyfirvöld og þingmenn kjördæmisins um þá vinnu sem félagið hefur lagt í auk þess sem ítrekað hefur verið gerð grein fyrir nauðsynlegri aðkomu ríkisins til að tryggja framgang verkefnisins. Fyrir liggur og hefur legið fyrir frá upphafi að í gerð Vaðlaheiðarganga verður ekki ráðist nema með aðkomu ríkisins.
Samgönguáætlun 2007-2010
Í samgönguáætlun sem samþykkt var á nýliðnu þingi eru Vaðlaheiðargöng meðal þeirra framkvæmda sem gert er ráð fyrir að fjármagnaðar verði með svokallaðri sérstakri fjármögnun. Í áætluninni er ekki tekin afstaða til þess með hvaða hætti fjár verði aflað, en áætlaðar 300 milljónir króna til Vaðlaheiðarganga sem deilist á árin 2008 – 2010. Öll vinna félagsins hefur miðað að því að hafist yrði handa við framkvæmdir við jarðgöngin á árinu 2007 og að þau yrðu opnuð í árslok 2010. Af því getur ekki orðið og það eru stjórn Greiðrar leiðar mikil vonbrigði.
Stjórn Greiðrar leiðar hefur allar götur frá árinu 2005, á fundum með samgönguyfirvöldum og þingmönnum, lagt fram hugmyndir sínar um aðkomu ríkisins að framkvæmdinni, sem forsendur þess að í gerð ganganna verði ráðist:
· Að virðisaukaskattur verði felldur niður af framkvæmdakostnaði líkt og gert var í Hvalfjarðargöngum, enda gert ráð fyrir innheimtu veggjalda með vsk.