Verðlaunahafar í hugmyndasamkeppni Upphafs ásamt Bjarna Hafþóri Helgasyni, framkvæmdastjóri félagsins. Frá vinstri; Björn Gíslason, Steinn Sigurðsson, Hugrún Ása Halldórsdóttir sem tók við verðlaununum fyrir Hugrúnu Ívarsdóttur og Bjarni Hafþór.
Þrenn verðlaun voru veitt í nýsköpunarsamkeppni Upphafs ehf. en félagið kynnti samkeppnina í apríl síðastliðnum og rann umsóknafrestur út þann 10. maí. Alls bárust 34 umsóknir í keppnina og valdi dómnefd þrjár af þeim í verðlaunasæti.Fyrstu verðlaun, kr. 300.000.- hlutu Björn Gíslason og Ægir Örn Leifsson fyrir hugmyndina Myndabankinn en verkefnið snýr að miðlægri vistun ljósmynda fyrir einstaklinga og fyrirtæki auk annarrar virðisaukandi þjónustu.
Önnur verðlaun, kr. 200.000.- hlaut Steinn Sigurðsson fyrir hugmyndina “Xtremer jeppasett fyrir “kit” áhugafólk” og þriðju verðlaun kr. 100.000.- hlaut Hugrún Ívarsdóttir fyrir hugmyndina “Mynstrað munngæti”.
Upphaf er fjárfestingarfélag í eigu KEA sem sinnir framtaks- og nýsköpunarverkefnum og tekur meðal annars þátt í þróun og útfærslu viðskiptahugmynda, frumframleiðslu og fyrstu skrefum markaðssetningar. Markmið félagsins með þessari samkeppni var að hvetja frumkvöðla til að koma hugmyndum sínum á framfæri og kanna vænlega fjárfestingakosti á sviði nýsköpunar. Vinningshöfum í nýsköpunarsamkeppni Upphafs er í framhaldinu frjálst að vinna með hugmyndir sínar á hvaða vettvangi sem þeir kjósa.