Markmiðið er að skjóta fljótlega fleiri stoðum undir reksturinn, bjóða upp á fleiri afurðir á sviði plastframleiðslu og fjölga störfum. Framkvæmdastjóri Plasteyrar ehf. er Hrafn Stefánsson, vélfræðingur.
Að sögn Hrafns Stefánssonar hefur stofnun félagsins átt sér nokkurn aðdraganda, enda um mikla fjárfestingu að ræða. “Ég hef átt í viðræðum við nokkra af stærstu aðilunum í matvælaframleiðslu á Akureyri og þeir veittu mér nauðsynlegt brautargengi til að koma þessu verkefni af stað. Þar á ég við sjávarútvegsfyrirtæki og fleiri öflug fyrirtæki sem þörf hafa fyrir okkar framleiðslu. Eftir að viðskiptaáætlun um verkefnið hafði verið unnin komu að þessu fjárfestar sem leggja í þetta umtalsverða fjármuni en það eru Upphaf og Tækifæri. Við leggjum upp með öflugan og dýran tækjabúnað, öðruvísi verða vörurnar ekki samkeppnishæfar í gæðum og verði,” segir Hrafn.
Tækjabúnaður Plasteyrar ehf. kemur frá Austurríki, Þýskalandi, Noregi og Japan og nemur heildarfjárfestingin rúmum eitt hundrað milljónum króna. Íslandsbanki og Glitnir annast lánsfjármögnunarþátt verkefnisins.
“Það er mikil þörf á að auka fjölbreytni í atvinnulífi í iðnaði á Akureyri og það er þörf fyrir þessar plastafurðir hér á svæðinu. Ég hef lengi haft áhuga á því að setja á laggirnar fyrirtæki um plastframleiðslu af þessu tagi og er mjög ánægður með að það skuli loks orðið að veruleika. Þetta verður hagkvæmt fyrir okkar viðskiptavini og vonandi arðsamt fyrir fjárfestana” segir Hrafn.