Greinarhöfundur, Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA.
Fyrir einum átta árum var KEA með hefðbundna starfsemi kaupfélags af gamla skólanum. Allt í einum potti; verslanir, apótek, mjólkursamlag, hótel, sjávarútvegssvið og fleira. Þá var glímt við erfiðleika í rekstri margra eininga vegna þess að þær báru sig einfaldlega ekki við breytt skilyrði. SumumFyrir einum átta árum var KEA með hefðbundna starfsemi kaupfélags af gamla skólanum. Allt í einum potti; verslanir, apótek, mjólkursamlag, hótel, sjávarútvegssvið og fleira. Þá var glímt við erfiðleika í rekstri margra eininga vegna þess að þær báru sig einfaldlega ekki við breytt skilyrði. Sumum deildum var lokað býsna hratt. Sláturhús og kjötvinnsla voru ekki sterkar einingar þörfnuðust endurnýjunar og umtalsverðra fjárfestinga. Sjávarútvegurinn var rekinn með viðvarandi halla nokkur ár þar á eftir og miklir fjármunir töpuðust. Félagið var mjög skuldsett og svifaseint og átti greininlega í erfiðleikum með að bregðast við breyttu umhverfi.
Horft um öxl
Bókfært eigið fé KEA í árslok 1996 var kr. 2.402 mkr. og eiginfjárhlutfall 28%. Snæfell var stofnað árið 1997 og voru eignir Útgerðarfélags Dalvíkinga og frystihúsa KEA lagðar inn í félagið 1. október sama ár. Miklar vonir voru bundnar við þetta skref í fyrirtækjavæðingu KEA, en félagið reyndist þungt í rekstri frá upphafi.
Árin 1997 og 1998 voru ekki glæsileg í afkomu KEA. Þróun eiginfjár félagsins var með eftirfarandi hætti; í árslok 1997 var eigið fé 2.646 mkr. (22%) og í árslok 1998 var það 2.082 mkr. (17% eiginfjárhlutfall). Árið 1998 hófst hið eiginlega breytingaferli með fyrirtækjavæðingu KEA með samþykkt fulltrúafundar félagsins.
Á árunum 1999 til og með 2001 var unnið að sölu á ýmsum eignum KEA. Byggingavörudeildin var sameinuð inn í Húsasmiðjuna og síðan seld, sömuleiðis var Brauðgerð KEA seld. Snæfell var sameinað inn í Samherja og er enn 18% eign í fyrirtækinu. Akureyrarapótek var keypt og sameinað Stjörnu Apóteki, sem síðan var sameinað öðrum apótekum og er rúmlega 43% eignarhlutur í fyrirtækinu Lyf og Heilsa, sem m.a. rekur þrjár lyfjabúðir á Akureyri. Matvöruverslanir KEA voru sameinaðar inn í Matbæ sem keypti verslanir á Húsavík og var síðan sameinað inn í Samkaup. Fyrr í þessum mánuði var 50,4% eignarhlutur í Samkaupum seldur. Eftir sem áður eru verslanir Samkaupa á félagssvæði KEA Strax, Úrval og Nettó. Þær eru í góðum rekstri, verða áfram á sínum stað og þjóna félagsmönnum KEA á meðan þær bjóða gott vöruval og samkeppnisfært verð á við aðra sem versla í byggðarlaginu.
Á árinu 2001 var mjólkurframleiðendum afhent 33% eign í Norðurmjólk að verðmæti a.m.k. 300 milljónir króna (raunverðmæti er e.t.v. talsvert meira). Um áramót 2001-2002 var bókfært eigið fé KEA 2.629 milljónir króna og bókfærðar heildareignir samstæðunnar 11.055 milljónir króna. Kaldbakur var stofnaður og tók við öllum eignum og skuldbindingum félagsins. Kaldbakur var stofnaður 100% í eigu KEA en jafnframt var félagsmönnum í KEA greitt út 28,4% af eigin fé með hlutabréfum í Kaldbaki. Eftir það hélt KEA einungis á 71,6% af því eigin fé sem eftir var í félaginu við árslok 2001 og sé tekið tillit til afhendingar á eign í Norðurmjólk var þetta hlutfall nokkuð undir 70% af því sem félagið hélt á á árunum 1999 og 2000.
Hvað hefur síðan gerst?
Hvað hefur síðan gerst með eignir KEA og hjá Kaldbaki?
Nú hefur Bústólpi verið seldur hann er hér enn sem Fóðurblandan og skaffar fóður og rekstrarvörur fyrir landbúnaðinn á samkeppnishæfu verði miðað við aðra landshluta.
Samkaup hefur verið selt til Kaupfélags Suðurnesja. Verslanir Samkaupa eru metnar á háu verði sem eitt og sér segir okkur að ekki stendur til að loka þeim verslunum sem eiga trygga viðskiptavini og skila þokkalegri eða góðri afkomu.
Samherji er eitt allra sterkasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og er ekkert á förum. Styrkir sig miklu fremur á Norður- og Austurlandi og er í fararbroddi á mörgum sviðum - m.a. í fiskeldi.
Norðlenska er 100% í höndum KEA á meðan bændur raða saman fjármagni og samstarfsaðili verði fenginn til að kjötframleiðendur ráði fyrirtækinu til frambúðar. Unnið er að því að mynda félag framleiðenda á félagssvæði KEA og vonandi einnig á Austurlandi, sem gert er ráð fyrir að taki strax við 33,3% af fyrirtækinu og eignist meirihluta á næstu þremur árum með veltutengdu framlagi bænda. Miðað er við að bændur eignist Norðlenska að fullu innan fyrirséðs tíma.
Rúmlega fjórir milljarðar
Eigið fé KEA var bókfært um síðustu áramót 2.033 milljónir króna, en taka verður tillit til þess að félagið átti umtalsverða dulda eign í Kaldbaki á þeim tímapunkti sem að hluta hefur verið innleyst á þessu ári.
Síðustu vikur hefur þróun á gengi Kaldbaks verið hagstæð og það má hiklaust leika sér að því að endurreikna verðmæti eigna gamla KEA. Gengi Kaldbaks og 27,04% eign KEA x 4,35 gera 2.080 milljónir. Að viðbættri eign félagsmanna KEA (sem A- og B-sjóðseigendur fengu við yfirfærsluna) en þeim var greitt með hlutafé 28,4% heildareigna félagsins eða 284 mkr. að nafnverði sú eign samsvarar 1.235 milljónum króna miðað við gengi í október 2003. Aðrar fjármunaeignir KEA eru bókfærðar á 485 milljónir króna auk þess seldi KEA 6% hlut í Kaldbaki í júlí sl. og fékk fyrir hann 386 milljónir króna. Að teknu tilliti til þess sem greitt hafði verið út til félagsmanna við stofnun Kaldbaks og þess eignarhlutar sem afhentur var í Norðurmjólk, þá er um að ræða heildarfjármuni upp á 4.500 milljónir króna. Allar eignir gamla KEA voru bókfærðar 2.082 milljónir króna um áramót 1998. Að sönnu voru þar einhverjar eignir vanmetnar, en það er jafn ljóst að að þar voru líka eignir sem voru ofmetnar. Hvað sem öðru leið voru þessar eignir ekki færar um að standa undir þáverandi skuldsetningu félagsins með óbreyttum rekstri á þeim tíma og þróunin var í eina átt.
Góð ávöxtun
Af þessu má sjá að þeir fjármunir sem KEA hélt á um áramótin 1998 hafa ekki bara haldið verðgildi sínu - þeir hafa aukið verðgildi sitt. Það má halda því fram að ávöxtun á eigin fé KEA 1998 til 2003, eða þessi tæplega fimm ár, hafi í það minnsta verið sæmileg, svo hóflega sé tekið til orða. Fullur þriðjungur af því fé er nú beint í höndum einstakra félagsmanna í formi hlutafjár í Kaldbaki og eignarhlutar Auðhumlu í Kaldbaki. Þessir félagsmenn kunna ábyggilega flestir vel að varðveita sitt fé eða þeir ráðstafa því til brýnna þarfa fjölskyldna sinna.
Hvernig og hvað svo?
Samherji og Lífeyrissjóður Norðurlands komu til liðs við KEA á síðasta ári til að stækka Kaldbak og breyta félaginu í alvöru fjárfestingarfélag. Sú aðkoma gerði mögulegt að losa eignir gamla KEA úr viðjum skuldsetningar og breyta hlutafé Kaldbaks í skráð viðskiptaverðmæti. KEA hefur smám saman selt frá sér hluta af eign félagsins í Kaldbaki, nú nemur eignarhlutur þess 27,04%. KEA hefur með því orðið á ný að staðbundnu afli til átaka og fjárfestinga á félagssvæðinu um leið og félagið sinnir mikilvægum stuðningi við menntir og menningu og nýsköpun í byggðarlaginu. Má þar m.a. nefna samning við Háskólann á Akureyri um styrktarverkefni (5 milljónir króna á ári), styrki Menningar- og viðurkenningasjóðs KEA (10-15 milljónir króna á ári) og starfrækslu Frumkvöðlaseturs Norðurlands.
Fjárfestingar
KEA hefur m.a. fjárfest í MT-bílum á Ólafsfirði, sem smíðar yfirbyggingar á slökkvibíla, og Baðfélagi Mývatnssveitar, sem nú hefur hafið framkvæmdir við gerð baðlóns í Mývatnssveit.
KEA er 13% eignaraðili að Norðurmjólk á Akureyri og stjórn hefur lýst vilja til að leggj bændum lið við að kaupa virkan meirihluta í fyrirtækinu. Um mánaðamótin ágúst/september sl. keypti KEA Norðlenska 100% og hefur með höndum eignarhald á því fyrirtæki meðan unnið er að því að skapa farveg fyrir eignarhald bænda að fullu. Komi til þess að nýir eigendur Eimskipafélags Íslands selji Brim, sjávarútvegssvið félagsins, sem samanstendur af Úgerðarfélagi Akureyringa, Haraldi Böðvarssyni á Akranesi og Skagstrendingi á Skagaströnd, hefur KEA lýst vilja til þess að leita leiða til að kaupa Útgerðarfélag Akureyringa út úr Brimi í samstarfi við aðra fjárfesta og staðbundna aðila.
Með framangreindum fjárfestingum og verkefnastuðningi er KEA að vinna að því markmiði að efla atvinnulíf og mannlíf á félagssvæði sínu og fjölga tækifærum. Hugtakið byggðafesta hefur verið notað í þessu samhengi.
Dúllerí og menningarstyrkir?
Það hefur borið á því að einstakir félagsmenn og nokkrir aðrir sem hafa tekið til máls, hafi látið í veðri vaka að KEA væri orðið að engu skúffufélag sem væri bara að sinna einhverju dúlleríi og menningarstyrkjum. Einstakir fjölmiðlar hafa með beinum eða óbeinum hætti ýtt undir þessa skoðun. Að sönnu er KEA ekki sama stórveldið á landsmælikvarða eða á héraðsvísu og það var fyrir 15-50 árum, en félagið er samt sem áður til og í fullu fjöri. Á sínum tíma var KEA of seint að bregðast við breyttum veruleika og þess vegna töpuðust verulegir fjármunir þar var mörgu um að kenna en lagaumhverfið var samvinnufélögum erfitt, auk þeirra erfiðleika sem landsbyggðin og sérstaklega landbúnaðurinn hafa þurft að takast á við.
Burðugt afl
Án þeirra umbreytinga sem hér að framan hefur verið farið yfir, væri KEA að líkindum ekki það afl sem til dæmis hefði haft burði til þess í dag að kaupa Norðlenska að beiðni forsvarsmanna bænda í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu og í samstarfi við framleiðendur á svæðinu. Á sama hátt má fullyrða að í óbreyttu formi frá 1998 væri ekki horft til KEA sem þess aðila sem gæti haft forystu um að tryggja þá miklu hagsmuni sem liggja í öflugri starfsemi ÚA á Akureyri og í nágrannabyggðum.
Miklar breytingar ný hugsun
Hér að framan hafa verið tíundaðar miklar breytingar, sem fela í sér nýja hugsun. Það er fullkomlega eðlilegt að það taki tíma fyrir rótgróna félagsmenn að móttaka og fallast á það sem hefur verið að gerast. Samt sem áður hefur tekist að fara í gegnum þetta ferli í nokkuð góðri sátt ólíkra hagsmuna. Nú eiga félagsmenn KEA jafna hlutdeild í félaginu og hafa allir jafnan rétt til áhrifa í gegnum atkvæðisrétt sinn og aðgang að deildarfundum og aðalfundi félagsins. Þessi staða samvinnufélags er ólík því sem er í öðrum almannafélögum.
Getum við ekki öll verið ánægð með þessa þróun?
Benedikt Sigurðarson,
formaður stjórnar KEA