Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli Starfsendurhæfingar Norðurlands ( SN ) og Vinnumálastofnunar um þróun þjálfunarvinnustaðar
á Akureyri.
Heimastöð þjálfunarvinnusstaðarins er að Glerárgötu 36 og hefst starfsemin á næstu dögum. Gerður hefur verið leigusamningur við
KEA sem styrkir verkefnið með myndarlegum hætti í gegnum húsaleigu og húsbúnað sem samtals er metið á þriðju milljón
króna. Einnig hefur Vinnumarkaðsráð á Norðurlandi eystra ákveðið að styrkja starfssemina um 800 þúsund krónur í formi
tækjakaupa.
Vinnumálastofnun kaupir af SN tíu þjálfunarpláss fyrir einstaklinga sem hafa verið í atvinnuleit lengur en í eitt ár. Hér er um
að ræða tilraunaverkefni og nýjung í starfssemi Starfsendurhæfingarinnar. Áhersla er lögð á að byggja upp samvinnu við
vinnumarkaðinn fyrir þá einstaklinga sem eru í þjálfun hjá SN og þurfa á stuðningi að halda til að komast í vinnu
á ný. Þjálfunin fer fram í tilbúnum aðstæðum í heimastöð. Einnig er ætlunin að tengja hana við vinnumarkaðinn
í formi starfskynninga og starfsþjálfunar. Á meðan á þjálfuninni stendur er þátttakandinn virkur í atvinnuleit. Með
þessu verkefni á að spornað við þeim ófyrirsjáanlegu afleiðingum sem langtíma atvinnuleysi hefur í för með sér.
Hugmyndin er sótt til sambærilegra þjálfunarvinnustaða í Evrópu og hugmyndafræðin einkum mótuð eftir hollenskum og slóvenskum
fyrirmyndum. Starfsendurhæfing Norðurlands hefur verið í samvinnu við samstarfsaðila í Hollandi og í Slóveníu á síðustu sex
árum í gegn um Evrópuverkefni og er sá þjálfunarvinnustaður sem nú lítur dagsins ljós ein afurða þess samstarfs.
Við undirritun samnings talið frá vinstri.
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, Geirlaug G. Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Starfsendurhæfingar Norðurlands, Soffía
Gísladóttir, fostöðumaður Vinnumálastofnunar á Akureyri og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálstofnunar.