15. mars, 2005
Stjórn Samherja hf. gerir tillögu um það til aðalfundar félagsins þann 7. apríl nk. að greiddur verði 30% arður af nafnverði hlutafjár. Hlutur KEA í Samherja er 166 milljónir króna að nafnverðii þannig að ef tillaga um
greiðslu 30% arðs verður samþykkt á aðalfundi nemur arðgreiðsla til KEA 49,8 milStjórn Samherja hf. gerir tillögu um það til aðalfundar félagsins þann 7. apríl nk. að greiddur verði 30% arður af nafnverði hlutafjár. Hlutur KEA í Samherja er 166 milljónir króna að nafnverðii þannig að ef tillaga um
greiðslu 30% arðs verður samþykkt á aðalfundi nemur arðgreiðsla til KEA 49,8 milljónum króna.
Samkvæmt upplýsingum frá Samherja nam hagnaður félagsins á síðasta ári 2.914 milljónum króna samanborið við 1.067 milljóna króna hagnað árið áður.
Rekstrartekjur samstæðunnar námu 16.760 milljónum króna og jukust um ríflega 35% frá árinu áður. Rekstargjöld ársins voru 14.494 milljónir króna og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 2.266 milljónir króna. Afskriftir voru 1.380 milljónir króna en þar af nam sérstök niðurfærsla vegna skipa 124 milljónum króna. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 1.140 milljónir króna. Hlutdeild í hagnaði hlutdeildarfélaga nam kr. 1.212 milljónum, hagnaður fyrir tekjuskatt var 3.238 milljónir króna og hagnaður eftir tekjuskatt og hlutdeild minnihluta nam 2.914 milljónum króna eins og áður segir.
Heildareignir samstæðunnar voru í árslok 26,8 milljarðar króna en þar af voru fastafjármunir 20,1 milljarður. Skuldir félagsins námu 15 milljörðum króna, eigið fé var 11,6 milljarðar og eiginfjárhlutfall 43%. Nettóskuldir námu 8.2 milljörðum króna í árslok. Veltufjárhlutfall var í árslok 1,12.
Rekstur móðurfélags gekk vel á árinu þrátt fyrir erfið ytri skilyrði. Rekstrartekjur jukust um 3,5 milljarða króna sem rekja má til verulegrar aukningar sem orðið hefur á umsvifum söludeildar en sölutekjur deildarinnar jukust um tæpa 4 milljarða króna á milli ára. Hins vegar drógust tekjur landvinnslu saman um 676 milljónir króna, sem að stærstum hluta má rekja til samdráttar í vinnslu uppsjávarafurða í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík en loðnuvertíðin brást að mestu. Útgerð félagsins gekk vel og þá sérstaklega rekstur fjölveiðiskipsins Vilhelms Þorsteinssonar EA-11 en aflaverðmæti skipsins var ríflega 1,6 milljarður króna. EBITDA sem hlutfall af rekstartekjum lækkaði milli ára úr 19,6% í 13,5% en ef horft er framhjá vörusölu þá jókst þetta hlutfall úr 20,8% í 21,3%
Á árinu seldi félagið eignarhluti sína í Hraðfrystistöð Þórshafnar hf. og Kaldbaki hf. og er söluhagnaður vegna þessa, samtals að fjárhæð 1.337 milljónir króna, færður meðal fjármagnsliða. Þá hefur verið gjaldfærð niðurfærsla á ýmsum eignarhlutum samtals að fjárhæð 116 milljónir króna.
Samherji hf. og dótturfélag eiga 9 hlutdeildarfélög og voru áhrif þeirra félaga jákvæð um 1.211 milljónir króna á árinu en þar af var jákvæð hlutdeild í rekstri Kaldbaks hf. 904 milljónir króna og jákvæð hlutdeild í rekstri Síldarvinnslunnar hf. samtals 274 milljónir króna.
Í tilkynningu Samherja til Kauphallarinnar segir orðrétt um horfur á þessu ári:
"Rekstrarhorfur í sjávarútvegi eru ekki góðar um þessar mundir. Hátt gengi íslensku krónunnar hefur veruleg áhrif á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og þá sérstaklega á afkomu landvinnslu. Allar líkur benda til þess að gengi krónunnar haldist áfram sterkt og ekki er líklegt að hækkun verði á afurðaverði næstu misserin. Félagið hefur þegar gripið til ýmissa ráðstafana vegna þessa. Í byrjun febrúar sl. varð bruni í fiskimjölsverksmiðju félagsins í Grindavík, sem veruleg áhrif hefur á afkomu félagsins á fyrstu mánuðum ársins 2005. Félagið var tryggt fyrir tjóninu bæði með bruna- og rekstrarstöðvunartryggingu. Rekstur fjölveiðiskipanna Baldvins Þorsteinssonar EA og Vilhelms Þorsteinssonar EA hefur gengið vel fyrstu mánuði ársins og var aflaverðmæti þeir samtals um 500 milljónir króna á fyrstu tveimur mánuðum ársins. Áætlun fyrir árið 2005 verður lögð fram á aðalfundi félagsins sem haldinn verður þann 7. apríl n.k. "