Tap síðasta árs skýrist að mestu af niðurfærslu skuldabréfaeignar og eignarhluta í fyrirtækjum. Hrun íslenska fjármálakerfisins, neyðarlögin og afleiðingar þeirra setja mark sitt á afkomuna en félagið átti skuldabréf á hina föllnu banka. Enn er mikil óvissa um mat eignarhluta við þær aðstæður sem nú ríkja. Bókfært eigið fé var rúmlega 3,8 milljarðar króna um síðustu áramót og heildareignir námu rúmlega 4,2 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall var 91%. Félagið er nánast skuldlaust og á rúma 2 milljarða króna í lausu fé. Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri, segir þetta vissulega ekki góða rekstrarniðurstöðu en horfa þurfi til hinna einstæðu atburða sem áttu sér stað s.l. haust. Einnig þurfi að horfa til þess að flest hliðstæð fyrirtæki eru ekki lengur til. Þetta er staðan eins og við metum hana núna en eins og áður byggjum við reikningsskil okkar á varfærinni nálgun við mat eigna. Við spiluðum þéttan varnarleik á síðasta ári og náðum að vernda lausafjárstöðuna að mestu leyti. Eins undarlega og það kann að hljóma er staða félagsins góð þrátt fyrir þær fjárhagslegu hamfarir sem nú ganga yfir þjóðina. Eiginfjárstaðan er sterk. Félagið hefur umtalsverða fjárfestingagetu og er með meirihluta af sínu eigin fé laust. Það eru ekki mörg fyrirtæki í þeirri stöðu í dag.
Mörkuð hefur verið ný stefna fyrir félagið. Áhersla verður lögð á það að nýta fjárfestingagetu félagsins til uppbyggingar á svokallaðri kjarnastarfsemi en það þýðir að fjárfest verður í einni starfsgrein. Slík starfsemi verður rekin innan samstæðu KEA og til hliðar við núverandi eignasafn félagsins. Þau grundvallarsjónarmið sem ráða vali á fjárfestingavalkostum í samræmi við þessa nýju stefnumótun félagsins eru héraðsleg tenging, bein þátttaka félagsmanna með viðskiptum við félagið og að allir félagsmenn hafi einsleyta hagsmuni af viðskiptum sínum við félagið. Í þessa átt verður unnið á yfirstandandi ári.
Stjórn félagsins sem og verkaskipting stjórnar er óbreytt.