Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA svf., flytur skýrslu stjórnar á aðalfundi KEA.
Á aðalfundi KEA svf. 29. apríl sl. flutti Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, skýrslu stjórnarinnar fyrir síðasta starfsára. Skýrslan fer hér á eftir.
Árinu 2002 var að mörgu leyti ætlað að vera lokaár þeirra breytinga sem Kaupfélag Eyfirðinga hefur farið í gegn um á síðustu árum. JafnÁ aðalfundi KEA svf. 29. apríl sl. flutti Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, skýrslu stjórnarinnar fyrir síðasta starfsára. Skýrslan fer hér á eftir.
Árinu 2002 var að mörgu leyti ætlað að vera lokaár þeirra breytinga sem Kaupfélag Eyfirðinga hefur farið í gegn um á síðustu árum. Jafnframt er það hiklaust upphafsár fyrir félagið í nýjum farvegi og prufukeyrsla á þeim samþykktum og stefnumótun sem lágu fyrir á síðasta aðalfundi.
Ekki er því hægt að segja að við séum búin að fá reynslu á félagsformið né heldur á verkefnahlutverk KEA við breyttar aðstæður. Til þess þarf lengri tíma og er ekki gerð tillaga um það hér að lagt verði mat á form félagsins og stefnumótun. Það er hins vegar eðlilegt að reikna með því að á næsta aðalfundi leggi stjórn félagsins fram einhver gögn sem fela í sér mat á því hvernig til hafi tekist - og geri þá um leið tillögur um frekari framþróun félagsins.
Stjórn hefur haldið fundi reglulega í hverjum mánuði og einn umtalsvert lengri vinnufund. Varaformaður stjórnar og ritari hafa samhliða komið til fundar með formanni og starfsmönnum Kaldbaks milli stjórnarfunda - einu sinni í mánuði eða oftar.
Félagið hefur haft mjög takmarkaða starfsemi frá síðasta aðalfundi, og hefur Kaldbakur annast um afgreiðslu erinda og rekstur fyrir félagið að mestu leyti. Rúnar Þór Sigursteinsson sinnti málefnum KEA fyrir hönd Kaldbaks í samráði við stjórnarformann eftir því sem þau þurftu formlega afgreiðslu einnig undirbjó hann stjórnarfundi og gögn félagsins ásamt Ástu B Kristjánsdóttur aðstoðarmanni framkvæmdastjóra Kaldbaks. Ekki var starfandi framkvæmdastjóri frá aðalfundi og þar til á þessu ári. Stjórnarformaður gegndi hins vegar 25% starfi fyrir félagið í 4 mánuði á síðasta ári og áfram til og með apríl 2003.
Um kynningarmál KEA, heimasíðu og fleira, hafa séð starfsmenn Athygli á Akureyri einkum Óskar Þór Halldórsson. Félagið hefur verið að vekja athygli á sér m.a. með þátttöku í Listasumri á Akureyri 2002 þar sem KEA-fáninn blakti við helstu aburði og lengi vel í Gilinu. Eins hefur KEA verið mjög sýnilegt sem styrktaraðili Snocross vélsleðamótanna og sjónvarpsþáttanna nú í vetur. Einnig hefur Menningar- og viðurkenningasjóður félagsins tekið til starfa af auknum krafti.
Margir hafa samt sem áður haft það í flimtingum upp á síðkastið að KEA sé búið að vera sé úr sögunni og sé að minnsta kosti ekki nema svipur hjá sjón - Vísast er nokkuð til í því. Félagið hefur ekki verið jafn sýnilegt og áður og rekstur verslana og afurðastöðva gefur ekki tilefni til samskipta félagsmanna og Kaupfélags Eyfirðinga í líkingu við það sem áður var. Þetta er breyting sem er endanleg og verður ólíklega snúið til baka um næstu framtíð. Hins vegar eru eignir félagsins ekki gufaðar upp og megnið af þeirri starfsemi sem var á höndum KEA fyrir 4-6 árum er enn til staðar á félagssvæðinu.
KEA Kaldbakur og eignir gamla KEA
Á síðasta ári lögðum við mat á umsvif þeirra félaga sem KEA áður og nú Kaldbakur bera ábyrgð á. Þar kom í ljós að umsvifin höfðu vaxið umtalsvert þegar miðað var við hlutdeild félaganna. Hins vegar er nauðsynlegt að hafa í huga að við áramót 2001-2002 var félagsmönnum KEA greidd út eign í stofnsjóði með hlutafé í Kaldbaki. Sú greiðsla nam 28,4% af heildareign félagsins og áður hafði félagi mjólkurframleiðenda (Auðhumlu svf) verið afhent 33% eign í Norðurmjólk gegn viðskiptasamningi. Þannig er mikilvægt að hafa í huga að nærri þriðjungur af heildareignum KEA á árinu 2000 var færður beint í hendur félagsmanna. Eftir stendur að félagið er skuldlaust og heldur sjálft á fjármunum sem nema meiru en tveimur milljörðum að verðmæti.
Mikilvægt er að félaginu takist að ná samstarfi við fólk og fyrirtæki á félagssvæðinu og ekki síður við sveitarfélög og stofnanir ríkisvaldsins um mikilvæg verkefni á sviði fjárfestingar og sköpunar nýrra tækifæra. Efling búsetu og samstarf um framfaramál verður að vera meginverkefni KEA í breyttum farvegi og að því verður að beina áherslum fyrst og fremst.
Starfsreglur stjórnar og stefnumótun félagsins gerir ráð fyrir að félagið veðri einkum samstarfsaðili í minnihluta - við fjárfestingar og einstök verkefni.
Mikilvægt er engu að síður að hafa í huga að félagið getur verið frumkvæðisaðili að framkvæmdum og fjárfestingum og hlýtur að ætla sér slíkt hlutverk en um leið þarf að huga að því að félagið geti verið sveigjanlegt og selt frá sér tiltölulega fljótt hlutafé í fyrirtækjum sem ekki þurfa á því að halda að við þau sé stutt til lengri tíma.
Stefnumótun gerir einnig ráð fyrir því að takmörkuð áhætta sé tekin með höfuðstól félagsins og hann einkum varðveittur með tryggri ávöxtun í fjárvörslu - og jafnframt í arðsömum og áhættulitlum atvinnurekstri.
Félagið hefur unnið að því á árinu að breyta Fjárfestingarfélaginu Urðir við Utanverðan Eyjafjörð, en það var stofnað með samstarfi við Sparisjóð Svarfdæla til að efla nýsköpun og stuðla að fjárfestingu í hátækni. Leitað hefur verið samstarfs við sveitarfélögin og ríkisvaldið um að koma að því verkefni og hefur stjórn KEA lýst vilja til að ráðstafa 30 milljónum króna til staðbundinnar fjárfestingar sem reyndar er þegar hafin með aðkomu að MT-bílum á Ólafsfirði.
Unnið er að því að koma á fót fjárfestingarsjóði í Þingeyjarsýslum með samstarfi við sveitarstjórnir á svæðinu. Stjórn KEA hefur merkt til þess allt að 60 milljónir króna sem er gróflega áætlað söluandvirði hlutar félagsins í Garðræktarfélagi Reykhverfinga. Bundnar hafa verið vonir við að iðnaðarráðuneytið fengist til að leggja söluandvirði Kísiliðjunnar í þann sjóð á móti KEA og þótt ríkisstjórnin sé búin að ráðstafa fjármagninu að mestu leyti þá er verkefnið samt ekki slegið af. Vonandi getur aðkoma KEA og ríkisvaldsins að Baðfélagi Mývetninga orðið í gegnum slíkt samstarfsfélag um staðbundnar fjárfestingar.
Menningar- og viðurkenningarsjóður KEA fór af stað með stórauknum fjármunum og endurnýjuðum starfsreglum á síðasta ári. Undirtektir við starf sjóðsins hafa verið mjög góðar og sérstaklega vekur athygi hvílíkur fjöld ungs afreksfólks á svið mennta, lista og íþrótta hefur leitað til sjóðsins. Á síðasta ári veitti félagið 2 milljónir í styrki til ungra íþróttamanna (undir 25 ára aldri) auk smærri styrkja.
Beinn stuðningur við Háskólann á Akureyri og samstarf um Frumkvöðlakennslu og rekstur Frumkvöðlaseturs Norðurlands er ný vídd í starfsemi KEA. Á síðasta ári var gengið frá samkomulagi við Háskólann sem tryggir stuðning við verkefni sem nemur á bilinu 5-7 milljónir króna árlega. Geta má þess að Rannsóknasjóður Háskólans ráðstafað á árinu 2002 um 2,5 milljónum króna svo af því má sjá hversu miklu þetta bætir við. Nú á vordögum er verið að ganga frá samkomulagi um að Háskólinn á Akureyri annist rekstur Frumkvöðlaseturs Norðurlands.
Á mörgum verkefnum hefur verið þreifað og má þar nefna samstarf við önnur kaupfélög um viðskiptasamninga og kostakjör með notkun Kostakorts KEA og VISA Ísland. Ekki hefur tekist að koma því máli áleiðis nægilega vel - og skýrist það einkum af ástæðum sem verið hafa sýnilegar á yfirborðinu í fjölmiðlum síðan á miðju síðasta ári. Gróin fyrirtæki sem tilheyrðu lengi vel samvinnuarfinum ef svo má kalla það hafa skipt um eignarhald og orðið um leið lykilleikendur í þeim átökum sem tengdust einkavæðingu ríkisbankanna. KEA kom fram í því máli sem bakhjarl og stærsti eigandi Kaldbaks og við höfðum sannarlega þær væntingar á einhverjum tímapunkti að með því að Kaldbakur eignaðist kjölfestuhluti í Landsbanka eða Búnaðarbanka mundi verða unnt að flytja mikilvæg umsvif og lykilstarfsemi til Akureyrar.
Hefði það tekist er ekki vafi á að verðmætum störfum hefði mátt stórfjölga á Akureyri - og um leið etv. ekki síður að flytja til svæðisins ákveðna þungamiðju í faglegri úrvinnslu fjármálastofnana. Slíkt hefði örugglega getað haft gríðarlega mikið vægi fyrir byggðamálin á svæðinu. Þess vegna átti KEA erindi og aðild að bankamálinu. Því miður var okkar fyrirtæki ekki fyrir valinu við ákvarðanir um kaupendur og er ekki ástæða til að rekja þá sögu hér - það hefur þegar hefur verið gert býsna rækilega í fjölmiðlum og reyndar virðast ýmsir fletir á málinu í heild ennþá vera að koma í ljós.
Vinna að bankakaupum og sú athygli sem málið hefur fengið hefur samt ótvírætt orðið til þess að Kaldbakur hefur fengið kynningu sem félaginu var nauðsynleg.
Ráðning framkvæmdastjóra starfsheiti hans og samþykktir
Andri Teitsson verkfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri KEA. Hann tók við starfi að fullu í apríl 2003 en hafði áður hafið störf að hluta. Andri er sérstaklega boðinn velkominn til starfa fyrir félagið og eru miklar vonir bundndar við störf hans.
Starfstitill hans er framkvæmdastjóri en ekki er notaður titillinn kaupfélagsstjóri. Í því sambandi er rétt að benda á að fyrirrennarar eins og Vilhjálmur Þór og Jakob Frímannsson eru í sögu félagsins og formlegum gögnum yfirleitt titlaðir framkvæmdastjórar þó önnur hefð hafi skapast síðar. Að þessu leyti erum við að leita aftur til sögunnar ef svo má orða það.
Almannafélag
KEA er almannafélag opið öllum lögráða íbúm við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslu. Atkvæðisrétturinn er jafn - eignarrétturinn er jafn við eigum öll sama tilkall til eigna félagsins og þjónustu af þess hálfu. KEA ber að veita liðsinni og leggja lóð sem nýtist félagssvæðinu í heild KEA hefur mikilvægt hlutverk við að skapa aukin tækifæri til sóknar í atvinnulífi efla til árangurs í menningarlífi, íþróttum, menntun og kappkosta að laða til samstarfs um framfarir í víðtækri merkingu.
Nýir tímar og breytt form samvinnufélaga
Einkavæðing og rekstur í hagnaðarskyni til að framkalla arð af fjárfestingu er ekki eina formið sem völ er á við endurnýjun þjónusturekstrar hins opinbera. Í USA, Bretlandi og Kanada er um þessar mundir einmitt mjög varað við einkavæðingu í hagnaðarskyni for profit þar sem fjármunir eru teknir út úr rekstri og notaðir til að greiða eigendum mikinn og óraunhæfan arð og á stundum stjórnendum svimandi fjárhæðir í laun og bónusa. Forsætisráðherra Kanada Jean Cretíen , hefur sett í gang mikla vinnu við að freista þess að snúa ofan af oft misheppnaðri einkavæðingu í heilbrigðisþjónustunni og nýtur til þess víðtæks stuðnings að því er virðist ef frá er talið eitt fylki. Í Bretlandi er stjórn Verkamannaflokksins sem er í samstarfi við Samvinnuflokkinn þar í landi (sem er reyndar hluti þingflokksins með milli 20 og 30 þingmenn) í óðaönn við að snúa ofan af kostnaðarsamri einkavæðingu sem hefur dregið úr skilvirkni og öryggi í rekstri m.a. járnbrauta og skóla og heilbrigðisstofnana. Svarið þar í landi er ekki að ríkisvæða eða þjóðnýta að nýju heldur að koma þjónustunni í öruggt form, með verktökusamningum, með því að fela sjálfseignarstofnunum eða samvinnufélögum að fara með reksturinn.
Í Bandaríkjunum og Kanada eru samvinnufélög samstarfsaðilar ríksistjórna um að reka margvísleg byggðaverkefni og stuðning við verkefni og svæði.
Það er ástæða fyrir KEA að huga að því hvernig megi hvetja til þess að kostir samvinnufélaga og möguleikar slíks félagsforms til að annast mikilvæg þjónustuverkefni verði nýttir á nýrri öld. Það er ósk mín að slík athugun geti farið fram í virku samstarfi við Háskólann á Akureyri og samstarfsstofnanir Háskólans eins og t.d. Byggðarannsóknastofnun. Það er eitt af þeim verkefnum sem KEA og Háskólinn geta örugglega átt samleið um til hagsbóta fyrir skólann um leið og slíkt getur fjölgað tækifærum á félagssvæðinu.
Að ná til fólks og endurnýja félagið
Kynningarverkefni sem hafa það að markmiði að fá nýja félagsmenn til liðs hafa verið í gangi upp á síðkastið. Meðal annars var laugardaginn 26. apríl menningarveisla á Glerártorgi í boði KEA. Þar var ungt fólk í aðalhlutverkum og félagið notaði þannig tækifærið að kynna sig og veita um leið beinan stuðning við félagsstarf og listsköpun m.a. í framhaldsskólunum. Nýjum félagsmönnum var boðið að félagið greiddi inngöngugjaldið til loka aprílmánaðar og efnt er til félagsmannahappdrættis. Úm leið vekur KEA athygli á Kaupmannahafnarflugi Air Greenland sem hófst 28. apríl. Nánar má vísa til kynningarbæklings sem dreift hefur verið að undanförnu.
Það er algert grundvallarmál fyrir félagið að endurnýja sig - sækja nýja félagsmenn.
Skapa tilgang og titrú á það sem félagið er að fást við. Ég trúi því að eftir sem áður verði KEA að vera hagsmunafélag fyrir sitt fólk og sýna það í öllu starfi að verið sé að vinna að hagsmunum fjöldans og efla félagssvæðið og fjölga tækifærum. Viðskipti fjölskyldunnar og dagleg neysla þarf að fá forgang í þeirri vinnu eins og hún snýr að félagsmönnum almennt.
Takist okkur þetta ekki þokkalega vel á næstu 4-6 árum reikna ég með að sú krafa verði hávær að greiða félagið út til félagsmanna og félagssvæðisins.
Starf stjórnar hefur gengið vel og hreinskilið samtal verið lagt til grundvallar mál eru undantekningalítið afgreidd með samkomulagi allra. Ég þakka stjórarmönnum fyrir samstarfið og einnig þakka ég starfsmönnum Kaldbaks, framkvæmdastjóra Kaldbaks og sérstaklega þeim Rúnari Þór Sigursteinssyni og Ástu Guðnýju Kristjánsdóttur.