Mikil samgöngubót
Ekki þarf að lýsa í mörgum orðum þeirri samgöngubót sem í framkvæmdinni felst en leiðin milli Selfoss og Akureyrar mun styttast um 140 kílómetra. Vegalengd milli stórs hluta Norður- og Norðausturlands og Reykjavíkur mun styttast um tugi kílómetra. Álag á vegakerfið inn og út úr Reykjavík getur minnkað og dreifst þegar ekki þarf að aka til Borgarness frá Selfossi til að komast til Akureyrar eða til baka. Búsetuskilyrði á stórum svæðum munu batna frá því sem nú er og áhrif á byggðir og samfélag verða mun meiri en menn gera sér grein fyrir í fljótu bragði.
Umferðaröryggi mun aukast, slysum og óhöppun fækka, umferð flutningabíla sem nú veldur mörgum áhyggjum mun dreifast, flutningskostnaður mun lækka, eldsneytisnotkun minnka, ferðaþjónusta á Suðurlandi og Norðurlandi og á hálendinu getur styrkst og almenningur öðlast aukið aðgengi að hálendinu.