Samstarfsyfirlýsingar um eflingu menntunar í orkumálum var undirrituð föstudaginn 27. apríl milli forráðamanna Orkuskólans á Akureyri (RES) og þriggja mennta og rannsóknastofnana. Þessar stofnanir eru Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri og Íslenskar orkurannsóknir ÍSOR. Samningarnir fela í sér að Orkuskólinn geti nýtt aðstöðu, starfsmenn og upplýsingar hjá þessum stofnunum, sem tengjast allar starfsvettvangi hins nýja Orkuskóla. Orkuskólanum hefur verið valið enska nafnið RES The School for Renewable Energy Science. RES hefur byggt upp yfirgripsmikið samstarfsnet háskóla og rannsóknastofnana í Evrópu og Norður Ameríku. Í samningunum sem verða undirritaðir í dag er lögð áhersla á nýsköpun og enn frekari alþjóðleg tengsl. Með samningunum hefur RES tryggt sér samstarf við mikilvægar innlendar stofnanir og tengsl við marga af hæfustu vísindamönnum á sviði orkumála hér á landi.
RES leggur áherslu á meistaranám og rannsóknir á sviði orkufræða, en undirbúningur að stofnun skólans hefur staðið yfir í þrjú ár. Hér um að ræða einkarekstur sem verður skipulagður í tengslum við Háskólann á Akureyri. Einkahlutafélagið Orkuvörður ehf. rekur nýja skólann. Íslensk fyrirtæki og stofnanir standa á bak við Orkuvörður. Nálægð við Háskólann á Akureyri og samstarf við HÍ og ÍSOR eiga að tryggja orkunáminu góða aðstöðu, hæfustu kennara og gæði.
Íslenskir vísindamenn og ráðgjafarfyrirtæki eru framarlega á sviði jarðhitanýtingar í heiminum. Íslendingar eru jafnframt meðal fremstu þjóða í heiminum í notkun og þróun endurnýjanlegra orkugjafa. Um 73% af frumorkuþörf okkar Íslendinga kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum; 27% er frá jarðefnaeldsneyti. Sambærilegar tölur fyrir heiminn eru um 14% hlutur endurnýjanlegra orku og um 86% óendurnýjanlegra orku, fyrst og fremst eldsneytis úr jörðu. Um 90% bygginga á Íslandi eru hitaðar með jarðvarma.
Miðað við þá áherslu sem lögð er á að draga úr gróðurhúsaáhrifum og mengandi útblæstri í heiminum verður það að teljast nauðsynlegt að fræðasviði endurnýjanlegra orkugjafa verði fundinn formlegur farvegur sem heildstætt nám í háskóla.