Fulltrúar eigenda nýs félags um útgáfu Vikudags kynntu áform sín á blaðamannafundi í dag. Frá vinstri; Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, Kristján Kristjánsson, rit- og framkvæmdastjóri, Birgir Guðmundsson, og G. Ómar Pétursson, framkvæmd
Hildingur ehf. sem er dótturfélag KEA, Kristján Kristjánsson, Birgir Guðmundsson og Ásprent Stíll hafa stofnað útgáfufélag sem keypt hefur allar eignir Vikudags á Akureyri og mun félagið hefja rekstur blaðsins frá og með áramótum.Félagið er í meirihlutaeigu Hildings ehf. Kristján Kristjánsson, blaðamaður á Morgunblaðinu, hefur verið ráðinn ritstjóri blaðsins og framkvæmdastjóri útgáfunnar. Nýja útgáfustjórn skipa Bjarni Hafþór Helgason, framkvæmdastjóri Hildings, Birgir Guðmundsson, lektor við Háskólann á Akureyri og G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents Stíls. Kaupin voru kynnt á blaðamannafundi nú fyrir hádegið og kom þar fram að fyrsta tölublað nýs útgáfufélags mun koma út þann 12. janúar. Ætlunin er að gefa blaðið áfram vikulega, að minnsta kosti fyrst um sinn, en forsvarsmenn útgáfunnar sögðu metnað sinn standa til þess að stækka blaðið og sækja fram. Blaðið verður sem fyrr selt í áskrift en það á að baki sér um 9 ára útgáfusögu. Kristján Kristjánsson segir að aðstandendur útgáfunnar hafi mikinn metnað til að byggja upp gott blað og horft er til þess að það þjóni fyrst og fremst Eyjafjarðarsvæðinu. “Ætlunin er að gera þetta með glans, búa til uppbyggilegt blað sem fjallar um málefni líðandi stundar hér á svæðinu,” sagði Kristján á blaðamannafundinum en hann hefur starfað sem blaðamaður og ljósmyndari hjá Morgunblaðinu á Akureyri frá árinu 1995. Áður var hann blaðamaður og síðar fréttastjóri Dags frá árinu 1985 og á hann því að baki 20 ár við blaðamennsku á Norðurlandi. Vikudagur mun taka umtalsverðum breytingum við þessi eigendaskipti og er markmiðið að efla og styrkja blaðið á öllum sviðum. Skrifstofur Vikudags verða að Óseyri 2 á Akureyri. og mun fyrsta blað nýrra eigenda koma út þann 12. janúar.