Í dag tekur KEA í notkun nýtt merki og fær um leið nýja ásýnd, m.a. verður ný heimasíða félagsins opnuð á netinu í dag. Í áratugi hefur merki KEA, sem fagnar 120 ára afmæli þann 19. júní næstkomandi, verið hinn þekkti græni tígull, en tilvist hans má rekja allt aftur til ársins 1930 og hefur hann sett mikinn svip á bæjarmynd Akureyrar. Sveinbjörn Jónsson hannaði tígulinn, en nýtt merki fyrir KEA var hannað hjá Ásprenti Stíl ehf.
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA, segir að nýtt merki undirstriki í raun þær áherslubreytingar sem orðið hafa á rekstri KEA á síðustu árum. “KEA er í dag fjárfestingarfélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæðinu” segir Halldór og bætir við að á síðustu misserum hafi verið komið á fót tveimur dótturfélögum KEA, fjárfestingarfélögunum Hildingi og Upphafi
Fleiri breytinga er að vænta hjá KEA. Ákveðið hefur verið að flytja skrifstofu félagsins úr Hafnarstæti 91, þar sem hún hefur verið staðsett um áratuga skeið. KEA á ekki lengur húsnæðið í Hafnarstræti, en hefur á undanförnum misserum leigt þar aðstöðu. Að sögn Halldórs Jóhannssonar rúmar núverandi húsnæði ekki starfsemi KEA, Upphafs og Hildings til framtíðar.