Nýr samningur um Háskólasjóð KEA

Frá undirritun á laugardag
Frá undirritun á laugardag
Í dag skrifuðu Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA og Þorsteinn Gunnarsson rektor Háskólans á Akureyri undir nýtt þriggja ára samkomulag um Háskólasjóð KEA. Fram að þessu hefur við úthlutanir verið horft til verkefna sem hafa verið viðbót við samþykkta starfsemi Háskólans á Akureyri og/eða samstarfsstofnana  hans.

Fjölmörg rannsóknarverkefni hafa hlotið styrki og hafa þau átt mikilvægan þátt í uppbyggingu rannsóknarstarfs við Háskólann á Akureyri.

KEA hefur nú tekið þá ákvörðun að gera sjóðinn enn öflugri og  stuðla þannig að enn frekari eflingu og uppbyggingu Háskólans á Akureyri. Til að mæta því markmiði  mun KEA úthluta árlega allt að 6 milljónum króna til sjóðsins og verður það gert með fernum hætti þ.e. með úthlutun rannsóknarstyrkja, með úthlutun styrkja til búnaðarkaupa, með styrkúthlutun til sérverkefna og með úthlutun námsstyrkja og verðlauna fyrir námsárangur.

Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA segir það afar mikilvægt fyrir Akureyri og nærsveitir að hér sé starfandi samkeppnishæfur og metnaðarfullur háskóli. „Mikilvægi háskóla í samfélagi eins og okkar er óumdeilt í harðnandi alþjóðlegri samkeppni svæða.  Líkt og hingað til vill KEA, með undirritun þessa samnings, leggja sitt af mörkum til að svo megi verða.“

 
Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, fagnar auknum stuðningi KEA við starfsemi Háskólans.  “Frekari uppbygging rannsóknastarfsemi og styrking innviða háskólans eru forgangsatriði í starfseminni á næstu misserum.  Stuðningur KEA er kærkomin viðurkenning á þýðingu háskólans fyrir samfélagið og skiptir miklu máli til að örva nýsköpun þekkingar.”