Ný Hörgárbrú og síðasti stóráfanginn á Tjörnesi

Birgir Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar í Norðausturkjördæmi, flytur sína tölu á deildarfun…
Birgir Guðmundsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar í Norðausturkjördæmi, flytur sína tölu á deildarfundi KEA í Vestur-Eyjafjarðardeild.
Bygging nýrrar brúar yfir Hörgá er eitt þeirra stóru verkefna í vegagerð á Norðausturlandi, sem ráðist verður í á þessu ári. Brúin kemur eilítið sunnar en núverandi brú yfir Hörgá. Raunar verður þetta verkefni boðið út eftir nokkrar vikur og framkvæmdir hefjast því væntanlega á vordögum. Áætlaður koBygging nýrrar brúar yfir Hörgá er eitt þeirra stóru verkefna í vegagerð á Norðausturlandi, sem ráðist verður í á þessu ári. Brúin kemur eilítið sunnar en núverandi brú yfir Hörgá. Raunar verður þetta verkefni boðið út eftir nokkrar vikur og framkvæmdir hefjast því væntanlega á vordögum. Áætlaður kostnaður við byggingu brúarinnar og aðliggjandi vegi er um 120 milljónir króna. Þessar upplýsingar komu fram í afar fróðlegu erindi Birgis Guðmundssonar, svæðisstjóra Vegagerðarinnar í Norðausturkjördæmi á deildarfundi KEA í Vestur-Eyjafjarðardeild í Þelamerkurskóla í gærkvöld. Fundurinn var ágætlega sóttur og sýndu fundarmenn málefninu mikinn áhuga. Birgir Guðmundsson var annar tveggja frummælenda á fundinum. Hinn var Ásgeir Magnússon, framkvæmdastjóri Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi og stjórnarmaður í Greiðri leið, undirbúningsfélagi fyrir gerð jarðganga undir Vaðlaheiði. Í máli Birgis kom fram að Hörgárbrúin nýja, sem verður 36 metra löng, er annað tveggja stærstu verkefna í vegagerð í umdæminu á þessu ári, hitt verkefnið, sem raunar er nokkru stærra í krónum talið, er síðasti áfangi uppbyggingar vegarins um Tjörnes. Meðal fjölmargra annarra verkefna sem Birgir nefndi að ráðist verði í á þessu ári er lagfæringar á Múlagöngum upp á 22 milljónir króna og síðan verður farið í uppbyggingu vegarins um Lágheiði, frá Kvíabekk að sýslumörkum. Þá verður sett ræsi í Hofsá í Svarfaðardal og byrjað að byggja upp veginn frá Ólafsfjarðarvegi og eitthvað fram austanverðan Svarfaðardal. Birgir fór yfir mögulega styttingu leiðarinnar milli Akureyrar og Reykjavíkur. Fram kom í hans máli það álit að ekki yrði farið í jarðgöng milli Hörgárdals og Hjaltadals á næstu árum, enda væri það verkefni einfaldlega of dýrt. Umrædd jarðgöng eru um 20 km löng og ætla má að þau kosti um tíu milljarða króna. Birgir taldi að áður en farið yrði í slíkt mannvirki yrði horft til þess að stytta leiðina og nefndi hann í því sambandi Svínvetningabraut, sunnan Blönduóss, og mögulega styttingu vegarins við Varmahlíð. Vaðlaheiðargöng Ásgeir Magnússon, stjórnarmaður í Greiðri leið, segir mikilvægt að Vaðlaheiðargöng komist inn í endurskoðaða vegaáætlun næsta haust. Því aðeins fáist fjármagn frá ríkinu til nauðsynlegra rannsókna á svæðinu. Ásgeir segir það mat sérfróðra manna að undirbúningur gangagerðar taki að lágmarki 2-3 ár og verktíminn sjálfur verði að lágmarki tvö ár. Ásgeir nefndi að Vaðlaheiðargöng verði hagkvæmari kostur með hverju árinu sem líði, enda þyngist umferð um Víkurskarð ár frá ári. Hann nefndi í því sambandi að frá árinu 1996 hafi umferð um Víkurskarð aukist um 40%. Hann segir það mat Greiðrar leiðar að umrædd framkvæmd sé vel raunhæf í einkaframkvæmd – þó ekki án stuðnings ríkisins.