Ein af ástæðunum fyrir kaupum Norðlenska, Kaldbaks og sparisjóðanna tveggja á Íslandsfugli er að tryggja að fyrirtækið verði áfram með starfsemi í Dalvíkurbyggð, en um 40 manns starfa hjá Íslandsfugli.
Norðlenska ehf., Kaldbakur - fjárfestingafélag hf., Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Norðlendinga hafa komist að samkomulagi við hluthafa kjúklingabúsins Íslandsfugls ehf. í Dalvíkurbyggð um að kaupa allt hlutafé í fyrirtækinu. Hinir nýju eigendur eru allir kröfuhafar í Íslandsfugli ehf.
ÍslaNorðlenska ehf., Kaldbakur - fjárfestingafélag hf., Sparisjóður Svarfdæla og Sparisjóður Norðlendinga hafa komist að samkomulagi við hluthafa kjúklingabúsins Íslandsfugls ehf. í Dalvíkurbyggð um að kaupa allt hlutafé í fyrirtækinu. Hinir nýju eigendur eru allir kröfuhafar í Íslandsfugli ehf.
Íslandsfugl ehf. hóf starfsemi fyrir um einu ári og slátrun á kjúklingum hófst í ágúst sl. Fyrirtækið er með starfsstöðvar á þremur stöðum í Dalvíkurbyggð, varphús er á Ársskógsströnd, eldishús í landi Ytra-Holts sunnan Dalvíkur og sláturhús og kjötvinnslustöð á Dalvík.
Mikið og gott uppbyggingarstarf hefur átt sér stað hjá Íslandsfugli ehf. og athyglisverður árangur náðst í kjúklingarækt og vinnslu afurðanna. Hins vegar hefur fjárhagsstaðan verið erfið og í tilkynningu Norðlenska, Kaldbaki, Sparisjóði Svarfdæla og Sparisjóði Norðlendinga er tekið fram að kaupin séu gerð með það fyrir augum að tryggja áframhaldandi rekstur félagsins þannig að sá góði árangur sem náðst hafi við uppbyggingu þess glatist ekki.
Um 40 manns starfa hjá Íslandsfugli, sem er einn stærsti atvinnurekandi í Dalvíkurbyggð. Ekki síst í því ljósi þótti kröfuhöfum mikilvægt að tryggja áframhaldandi rekstur fyrirtækisins.
Nýir eigendur munu á næstu dögum ganga til viðræðna við kröfuhafa og lánardrottna um endurskipulagningu félagsins, að því er kemur fram í tilkynningu frá kaupendum. Kaupin eru gerð með venjubundnum fyrirvörum um könnun á fjárhagsstöðu félagsins, en til þess hafa nýir eigendur 14 daga.
Í lok tilkynningarinnar er tekið fram að engar breytingar um stjórn eða stjórnendur liggi fyrir á þessari stundu, enda vart tímabært á meðan kaupin hafi ekki verið endanlega staðfest.