Mörg verkefni komin í gang á vegum Vaxtarsamnings Eyjafjarðar

Um þessar mundir er liðið eitt ár síðan Vaxtarsamningi Eyjafjarðarsvæðisins var ýtt úr vör. Á fyrstu mánuðum var unnið að því að skilgreina verkefnið og móta vinnuna framundan. Á síðustu mánuðum hefur ýmsum verkefnum verið ýtt úr vör undir fjórum skilgreindum klösum – ferðaþjónustuklasa, mennta- ogUm þessar mundir er liðið eitt ár síðan Vaxtarsamningi Eyjafjarðarsvæðisins var ýtt úr vör. Á fyrstu mánuðum var unnið að því að skilgreina verkefnið og móta vinnuna framundan. Á síðustu mánuðum hefur ýmsum verkefnum verið ýtt úr vör undir fjórum skilgreindum klösum – ferðaþjónustuklasa, mennta- og rannsóknaklasa, matvælaklasa og heilsuklasa - og verður stuttlega gerð grein fyrir nokkrum þeirra í þessari samantekt. Bjarni Jónasson er verkefnisstjóri Vaxtarsamnings Eyjafjarðar. Rétt er að rifja upp að Vaxtarsamningur Eyjafjarðar er samstarfsverkefni opinberra og einkaaðila um uppbyggingu atvinnulífs við Eyjafjörð. Unnið er samkvæmt hugmyndafræði um klasa þar sem fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög taka höndum saman um eflingu atvinnulífs. Lögð hefur verið áhersla á verkefni í þeim atvinnugreinum sem eru nú þegar sterkar í Eyjafirði, með það að markmiði að efla þær enn frekar til að takast á við alþjóðlega samkeppni. Vaxtarsamningur Eyjafjarðar gildir til ársins 2007 og er markmiðið að efla Eyjafjarðarsvæðið sem eftirsóttan búsetuvalkost, auka samkeppnishæfni svæðisins, sem og að laða að alþjóðlega fjárfestingu og þekkingu og stuðla þannig að fjölgun íbúa á Eyjafjarðarsvæðinu á samningstímanum um 1500 manns. Ferðaþjónustuklasi Verkefnastjóri ferðaþjónustuklasa Vaxtarsamningsins,Bergþóra Aradóttir, tók til starfa sl. vor. Náið samstarf er með Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi, en starfssvæði klasans er það sama og Markaðsskrifstofunnar – þ.e. allt Norðurland. Skipaður hefur verið forystuhópur klasans, sem mun marka stefnu um hvaða verkefni verður fyrst og fremst lögð áhersla á að vinna á komandi mánuðum og misserum. Í forystuhópi ferðaþjónustuklasans eru Áskell Heiðar Ásgeirsson, sviðsstjóri markaðs- og þróunarsviðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar, Jóhanna G. Jónasdóttir, bæjarfulltrúi á Blönduósi, Ásbjörn Björgvinsson, forstöðumaður Hvalamiðstöðvarinnar á Húsavík, Yngvi Ragnar Kristjánsson, framkvæmdastjóri Sel-Hótel Mývatns, Páll Jónsson, framkvæmdastjóri veitingasviðs Keahótela, Margrét Víkingsdóttir, upplýsingafulltrúi Dalvíkurbyggðar, og Steingrímur Birgisson, framkvæmdastjóri Hölds. Nú þegar hefur ferðaþjónustuklasinn komið að ýmsum áhugaverðum verkefnum með einum eða öðrum hætti. Nefna má: ·Samstarf skíðasvæða á Norðurlandi Að frumkvæði ferðaþjónustuklasa hafa forráðamenn skíðasvæða í Eyjafirði og annars staðar á Norðurlandi fundað í þrígang um sameiginleg hagsmunamál. Þriggja manna hópur hefur verið skipaður til þess að leiða þá vinnu sem komin er í gang, en hún lýtur m.a. að markaðssetningu skíðasvæða á Norðurlandi undir vinnuheitinu “Vetrarævintýri á Norðurlandi”. ·Samstarf safna á svæðinu Á Eyjafjarðarsvæðinu eru mörg áhugaverð söfn. Vaxtarsamningur Eyjafjarðar hefur stutt fjárhagslega og fylgst með vinnu er lýtur að aukinni samvinnu safna til sameiginlegrar markaðssetningar – m.a. með sameiginlegri vefsíðu og kynningarbæklingi. ·Tröllaskagi Unnið er með ýmsum hætti að því að kynna Tröllaskagann sem útivistarsvæði fyrir ferðamenn – í samstarfi fyrirtækja og sveitarfélaga. Ferðaþjónustuklasi leggur þessu verkefni lið með fjárhagslegum stuðningi og á annan hátt. Stjórn þessa verkefnis er í höndum Kjartans Bollasonar í Hólaskóla. Meðal annars hefur verið unnið að því að kortleggja gönguleiðir á Tröllaskaga og þá hefur þeirri hugmynd verið varpað fram að koma á fót “Tröllaskagastofu”, þar sem á aðgengilegan hátt væru settar fram ýmsar upplýsingar um svæðið. ·“Matarferðamennska” Á Eyjafjarðarsvæðinu er mikil og fjölbreytt framleiðsla matvæla. Í ferðaþjónustuklasa Vaxtarsamningsins hefur verið um það rætt að tengja þessa matvælaframleiðslu í auknum mæli við ferðaþjónustu á svæðinu – þ.e. að ferðaþjónustufyrirtækin bjóði gestum upp á sérstöðu svæðisins í mat og drykk. Þessu tengist stuðningur Vaxtarsamnings Eyjafjarðar við Fiskidaginn mikla á Dalvík 2005. ·Leiðsögumannanám Unnið hefur verið að því að koma á fót námi fyrir leiðsögumenn á Norðurlandi og verður það að veruleika í haust á vegum Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar. Mennta- og rannsóknaklasi Í febrúar 2005 hófst starfsemi mennta- og rannsóknaklasa Vaxtarsamningsins með hugarflugsfundi þar sem velt var upp ýmsum hugmyndum um mögulega samvinnu varðandi menntun og rannsóknir. Jafnhliða hóf verkefnastjóri klasans, Björk Sigurgeirsdóttir, störf. Í framhaldi af framangreindum hugarflugsfundi hefur verið unnið að ýmsum verkefnum. Þann 6. október mun forystuhópur mennta- og rannsóknaklasa funda í fyrsta skipti, en hópurinn hefur það verkefni að móta framtíðarsýn og stefnu, áhersluatriði og forgangsröðun í starfi klasans. Hópinn skipa Soffía Gísladóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar, Jón Haukur Ingimundarson, settur forstöðumaður Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar, Björn Gunnarsson, deildarforseti auðlindadeildar Háskólas á Akureyri og Trausti Þorsteinsson, forstöðumaður skólaþróunarsviðs Háskólans á Akureyri. Af þeim verkefnum sem mennta- og rannsóknarklasi hefur unnið að og eru framundan má nefna: ·Vísindagarðar við Háskólann á Akureyri Vaxtarsamningur Eyjafjarðar kom að undirbúningi hugmyndar um Vísindagarða við HA, en um það mál hefur verið stofnað félagið “Þekkingarvörður”, sem mun fylgja því eftir. ·Norðurslóðahópur – Northern Studies and Cooperation Starfshópur sem gengur undir nafninu “Norðurslóðahópurinn” hefur unnið að því að efla kynningu á Akureyri sem miðstöð norðurslóðarannsókna. Hópurinn, sem í eru um tuttugu manns, hefur m.a. unnið að því að koma á fót rafrænu fréttabréfi, sem verður á ensku. ·Samráðsfundur fyrir “smærri” aðila Þann 11. október milli 17-19 boðar mennta- og rannsóknaklasi ásamt heilsuklasa fund á Hótel KEA með minni fyrirtækjum og stofnunum á Eyjafjarðarsvæðinu – með t.d. 1-5 starfsmenn - þar sem skoðað verður hvort mögulegt sé að leiða þessa aðila saman og ná fram mögulegum samlegðaráhrifum annaðhvort með rekstrarlegri hagræðingu eða faglegri samvinnu. Matvælaklasi Jón Ingi Benediktsson er forstöðumaður Matvælaseturs HA og veitir matvælaklasa Vaxtarsamningsins forstöðu, en hann tók við því starfi á liðnu sumri af Arnheiði Eyþórsdóttur. Meðal þeirra verkefna sem unnið hefur verið að má nefna: ·Ímynd Eyjafjarðar sem matvælaframleiðslusvæði Í framhaldi af matvælasýningunni MATUR-INN í Verkmenntaskólanum á Akureyri sl. vetur, sem matkvælaklasi Vaxtarsamningsins kom að með fjárhagslegum stuðningi og á annan hátt, hafa aðilar í matvælaframleiðslu og ferðaþjónustu á svæðinu átt saman fundi og rætt leiðir til þess að styrkja ímynd svæðisins sem matvælaframleiðslu- og ferðamannasvæði. Að fenginni reynslu af áðurnefndri matvælasýningu á sl. ári er ákveðið að efna til slíkrar sýningar árið 2007 og einnig hefur verið ræddur sá möguleiki að eyfirskir matvælaframleiðendur taki sameiginlega þátt í matvælasýningunni Matur 2006 í Kópavogi. Ekki er þó komin niðurstaða í það mál. ·Starfsmenntun starfsfólks í matvælaiðnaði Að undanförnu hefur verið unnið að því að efla nám fyrir ófaglært fólk sem starfar við matvælagreinar á svæðinu – í samstarfi Símenntunarmiðstöðvar, Verkmenntaskólans á Akureyri o.fl. Þessi vinna er í fullum gangi og er stefnt að því að bjóða upp starfsmenntunarnámskeið fyrir matvælageirann á vorönn 2006. ·Samvinna matvælaframleiðslu- og þjónustufyrirtækja Matvælaklasi Vaxtarsamningsins hefur verið að vinna að ákveðinni undirbúningsvinnu, sem miðar að því að kanna hvort forsendur séu fyrir því að fá fyrirtæki í matvælaframleiðslu, veitingaþjónustu og fleiri til að taka höndum saman um framleiðslu á mat fyrir skóla, stofnanir og vinnustaði. Liður í þessari vinnu er öflun upplýsinga um kröfur um gæðamál o.fl., og er stefnt að því að boða til fundar um þetta mál nú á haustdögum. Heilsuklasi Bjarni Jónasson er forstöðumaður Heilbrigðisvísindastofnunar HA og veitir forstöðu heilsuklasa Vaxtarsamningsins. Forystuhópur heilsuklasans hefur verið skipaður og mun hann hittast þann 12. október nk. Í hópnum eru: Þorvaldur Ingvarsson, framkvæmdastjóri lækninga á FSA, Hermann Óskarsson, starfandi deildarforseti heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri, Karl Guðmundsson, sviðsstjóri félagssviðs Akureyrarbæjar, Friðfinnur Hermannsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga, Einar Einarsson, sjúkraþjálfari hjá Eflingu á Akureyri, og Garðar Birgisson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Theriak á Akureyri. Meðal verkefna sem hópnum hafa verið falin er að marka stefnu fyrir vinnu klasans og móta þau verkefni sem klasinn mun vinna að á næstunni. Meðal verkefna sem heilsuklasinn hefur nú þegar komið að má nefna: ·“Bætum lífi við árin” Þjónusta fyrir fólk 67 ára og eldri, sem vill viðhalda færni og getu með þjálfun, fræðslu og skemmtun. ·Starfsendurhæfing Hugsað fyrir fólk sem er að detta út af vinnumarkaði eða skóla og er líklegt til að fara á bætur í almannatrygginga- eða lífeyrissjóðakerfinu. ·Átaksnámskeið Námskeið þar sem boðið er upp á fyrirlestra, heilsutékk, æfingar, þjálfun, menningu og etv. matarupplifun. ·Þemavikur Þemavikur fyrir fólki sem vill afla sér þekkingar eða efla þekkingu sína á viðkomandi málefni eða þema og eða taka þátt í verkefnum og æfingum sem miða að betri líðan þátttakenda. Nefna má í þessu sambandi offitu og mataræði og bakvandamál. ·Samráðsfundur heilsustofnana Mikilvægt er að efla tengsl heilbrigðisdeildar Háskólans á Akureyri og heilsustofnana á svæðinu. Boðað verður til samráðsfundar 20. október n.k. ·Heilbrigðistengd upplýsingatækni Unnið er að undirbúningi verkefna sem tengjast notkun upplýsingatækni í heilsugeiranum. Nánari upplýsingar veita forstöðumenn framangreindra klasa. Einnig eru ýmsar upplýsingar á www.klasar.is