KEA vill leggja allt að 800 milljónir til fjárfestinga- og stuðningsverkefna næstu fjögur ár

Á fundi stjórnar Kaupfélags Eyfirðinga svf. í gær, þriðjudaginn 27. apríl, var gerð samþykkt þar sem lýst er vilja til þess að félagið leggi fram 150-200 milljónir króna árlega næstu fjögur til fjárfestinga og stuðningsverkefna sem skiptast milli þeirra vaxtarkjarna sem skilgreindir eru í tillögum nÁ fundi stjórnar Kaupfélags Eyfirðinga svf. í gær, þriðjudaginn 27. apríl, var gerð samþykkt þar sem lýst er vilja til þess að félagið leggi fram 150-200 milljónir króna árlega næstu fjögur til fjárfestinga og stuðningsverkefna sem skiptast milli þeirra vaxtarkjarna sem skilgreindir eru í tillögum nefndar um Byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð sem kynntar voru fyrir stuttu. Á stjórnarfundinum í gær var gerð eftirfarandi samþykkt: Viljayfirlýsing Kaupfélag Eyfirðinga hefur markað þá stefnu að nýta beri fjármuni félagsins til að rækta byggðafestu á félagssvæðinu, taka þátt í fjárfestingum og nýsköpun og margvíslegum stuðningsverkefnum á sviði mennta og menningar. Þannig telur félagið að það leggi af mörkum til að auka lífsgæði og fjölga tækifærum fyrir félagsmenn og skapa með því hvata til að fólk kjósi að búa og starfa á félagssvæði KEA. Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga fagnar þeirri tillögugerð sem kemur fram í skýrslu nefndar um Byggðaáætlun fyrir Eyjafjörð. Sérstaklega ber að fagna því að áherslum er þar beint að afmörkuðum vaxtarkjörnum – sem gera ráð fyrir víðtæku samstarfi fyrirtækja og samtaka, sveitarfélaga og ríkisvaldsins og stofnana þess. Slíkt þríhliða samstarf stjórnvalda, fyrirtækja og sveitarfélaga þarf á því að halda að Háskólinn á Akureyri verði virkur farvegur til að draga að og skapa þá þekkingu sem þarf að leggja til grundvallar jákvæðri framþróun atvinnulífs og mennta. Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga lýsir vilja til þess að félagið leggi fram 150-200 milljónir árlega næstu fjögur ár til fjárfestinga og stuðningsverkefna sem skiptast milli þeirra vaxtarkjarna sem skilgreindir eru í tillögum nefndarinnar. Auk þess lýsir stjórnin vilja til þess að KEA leggi fram 10 milljónir á ári 2004-2007 til þess að koma á framfæri og halda utan um þróun Vaxtarsamningsins í samræmi við tillögur nefndarinnar. Skilyrði þessarra framlaga eru eftirfarandi: - Að samkomulag verði milli aðila um sameiginlegan undirbúning og útfærslu á meginatriðum þeirra vaxtarkjarna sem lagt er af stað með. - Að samkomulag takist um að ríkisvaldið og stofnanir þess annars vegar og sveitarfélög á svæðinu hins vegar leggi a.m.k. jafn mikla fjármuni af mörkum innan sömu tímamarka. - Að ríkisvaldið vinni að því að Háskólinn á Akureyri fái nægilegt fjármagn til að geta orðið sá lykilaðili að samstarfi um Vaxtarsamning Eyjafjarðarsvæðisins sem tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir. Kaupfélag Eyfirðinga áskilur sér rétt til að leita samstarfs við fyrirtæki og samtök á starfssvæðinu um fjármögnun þessara skuldbindinga – af sinni hálfu. Undirbúningsrannsóknir vegna Vaðlaheiðarganga Á stjórnarfundi KEA í gær var samþykkt að félagið leggi allt að 5 milljónir króna til Greiðrar leiðar ehf., undirbúningsfélags að gerð jarðganga undir Vaðlaheiði, til að kosta nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir vegna gerðar Vaðlaheiðarganga. Í samþykktinni er áskilið “að framlagið færist sem hlutafé í framkvæmdafélagi um gerð Vaðlaheiðarganga jafnskjótt og slíkt félag verður stofnað.” Snjóframleiðsla í Hlíðarfjalli Þá samþykkti stjórn KEA á fundinum í gær að lýsa vilja til að KEA taki þátt í fjármögnun á snjóframleiðslubúnaði í Hlíðarfjalli; annars vegar með beinni þáttöku í fjárfestingunni og hins vegar með lánsfjármögnun – með sanngjörnum vaxtakjörum. Stjórn KEA fól framkvæmdastjóra félagsins að leita samráðs við forráðamenn Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands/Skíðastaða í Hlíðarfjalli varðandi aðkomu félagsins að verkefninu og gera tillögur til stjórnar um nánari útfærslu og heildarfjárhæðir. Opið málþing – aðalfundur KEA í dag Áðurgreindar samþykktir verða kynntar á aðalfundi KEA kl. 20.30 í kvöld í Safnaðarheimili Akureyrarkirkju. Einnig koma þær til umræðu á opnu málþingi sem KEA efnir til á sama stað á undan aðalfundinum, kl. 18-20. Málþingið ber yfirskriftina “Vaxtarsamningur fyrir Eyjafjarðarsvæðið – aðild KEA að nánari úrvinnslu og aðgerðum”. Framsöguerindi á málþinginu flytur Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Að því loknu verða pallborðsumræður þar sem auk ráðherra taka þátt: Halldór Jónsson, forstjóri FSA Sigrún Björk Jakobsdóttir, bæjarfulltrúi á Akureyri Helgi Jóhannesson, framkvæmdastjóri Norðurmjólkur og stjórnarformaður Matvælaseturs HA Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA Samantekt í lok pallborðs: Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA Stjórnandi pallborðsumræðna: Birgir Guðmundsson, blaðamaður og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri.