Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA svf.
Það er alveg ljóst að starfsemi KEA er mörgum lítt sýnileg vegna þess að félagið hefur ekki rekstrarumsvif og megnið af eignum félagsins er bundið í Kaldbaki hf. KEA hefur losað um 550 milljónir með sölu á eigin bréfum í Kaldbaki og hefur þegar tekið þátt í fjármögnun og kaupum á Norðurmjólk hf., kÞað er alveg ljóst að starfsemi KEA er mörgum lítt sýnileg vegna þess að félagið hefur ekki rekstrarumsvif og megnið af eignum félagsins er bundið í Kaldbaki hf. KEA hefur losað um 550 milljónir með sölu á eigin bréfum í Kaldbaki og hefur þegar tekið þátt í fjármögnun og kaupum á Norðurmjólk hf., keypt hlutafé í MT-bílum í Ólafsfirði og kemur að endurreisn Skinnaiðnaðar hf. á Akureyri. Ýmis mál eru í skoðun, m.a. hefur KEA haft forgöngu um að skoða möguleika á að koma á fót nýju fréttablaði fyrir Norðausturland. Það mál mun væntanlega skýrast mjög fljótlega, segir Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar Kaupfélags Eyfirðinga samvinnufélags.
Ekki þarf að hafa um það mörg orð að KEA hefur tekið miklum breytingum á undanförnum mánuðum og misserum. Benedikt stjórnarformaður segir að vissulega séu breytingarnar yfirgripsmiklar og þær hafi gengið hratt fyrir sig. Þess vegna sé eðlilegt að margir félagsmenn eigi í erfiðleikum með að fylgja eftir öllum þessum breytingum. KEA er allt annað félag en áður og það hefur tekið og mun taka langan tíma að kynna félagsmönnum og öðrum breyttan tilgang félagsins og starfsemi þess í dag. Starfsemi KEA verður að mínu mati sýnilegri en nú er með þátttöku félagsins í ýmsum fjárfestingaverkefnum og stuðningi Menningar- og viðurkenningasjóðs KEA við framfara- og menningarverkefni á félagssvæðinu.
Fjarri því að vera dautt félag
Benedikt segir alveg ljóst að fjöldi fólks á félagssvæði KEA telji að félagið sé dautt. Já, við urðum varir við það í aðdraganda deildafunda og aðalfundar fyrr á þessu ári að hópur félagsmanna virtist hafa afskrifað félagið. Að mörgu leyti skil ég vel það viðhorf. Við skulum hafa í huga að undanfarin ár hefur Kaupfélag Eyfirðinga tekist á við erfiða skuldsetningu og oft á tíðum taprekstur. Þess vegna er ekki óeðlilegt að margir hafi myndað sér þá skoðun að sú formbreyting sem fólst í að Kaldbakur tók við eignum og skuldbindinum Kaupfélags Eyfirðinga og KEA varð hreint samvinnufélag hafi verið til marks um að þar með væri KEA dautt félag. Því fer þó víðs fjarri. KEA er nú skuldlaust samvinnufélag með mikla eign, sem fyrst og fremst er bundin í Kaldbaki fjárfestingarfélagi. Rétt er að rifja upp að félagsmenn KEA fengu bréflega tilkynningu um beinan eignarhlut sinn í Kaldbaki í ársbyrjun 2002 og á sama tíma var B-stofnsjóðseigendum, sem fjárfest höfðu í KEA, greitt út sitt fjármagn með eign í Kaldbaki. Með þessum hætti voru félagsmönnum í KEA afhent 28,4% af öllum þáverandi eignum félagsins. Við síðustu áramót héldu 71,6% af eignum KEA áfram að vera í sameiginlegri eigu meira en 7.500 félagsmanna. Félagsmenn eiga allir jafnt tilkall til þessarar eiginar og hafa allir jafnan möguleika til þátttöku og áhrifa á stjórn félagsins.
Það er mikilvægt að koma því til skila til félagsmanna og alls almennings að styrkur efnahagur Kaupfélags Eyfirðinga svf. getur staðið á bak við öfluga starfsemi til framtíðar.
Hvar eru eignir KEA?
Kaldbakur hf. var stækkaður í mars sl. með því að Samherji og Lífeyrissjóður Norðurlands komu inn í félagið með aukið hlutafé. Eftir þá breytingu á KEA svf. tæplega 50% í Kaldbaki, Samherji 16% og Lífeyrissjóður Norðurlands tæplega 15%. Félagsmenn í KEA halda sjálfir á tæplega 15% heildareignar og á félagið sjálft nú um 10% af eigin bréfum.
Ljóst er að stærsti hluti eigna KEA verður fyrst um sinn 46% hlutur í Kaldbaki, en eignir Kaldbaks eru eftir sem áður í meginatriðum þær sem KEA hélt á áður. Nú eru þær hins vegar í sameign með öðrum aðilum og félagsmönnum KEA í gegnum Kaldbak. Stjórnarformaður KEA segir afar brýnt að KEA reynist traustur samstarfsaðili og beiti stöðu sinni eingöngu með fullri virðingu fyrir hagsmunum annarra eigenda. Eignir Kaldbaks fjárfestingarfélags hf. eru:
· 18% hlutur í Samherja hf (eða sú eign sem áður var í sjávarútvegssviði KEA í gegnum Snæfell). Verðmæti þessa hluts má áætla með vísan til skráðs gengis á bréfum Samherja.
· Helmings hlutur í Samkaupum (áður verslunarsvið KEA í gegnum Matbæ rekur verslanir Strax, Úrval og Nettó á félagssvæðinu og Samkaup, Sparkaup og Kaskó á Suðurnesjum og víðar).
· 46% hlutur í Lyfjum og heilsu hf., sem rekur Lyf&heilsu auk Apótekarans.
· 58% hlutur í Norðlenska þar sem uppistaðan er kjötiðnaðarstöðvar og sláturhús á Akureyri og Húsavík og tilheyrandi vörumerki auk vörumerkja Goða.
· Klettar fasteignafélag - sem heldur á húseignum þeim sem KEA átti áður.
· Helmingseign í Fjárstoð sem áður var Grófargil og er byggð á starfsemi að skrifstofuhaldi KEA frá fyrri tíð.
· Aðrar eignir margvíslegar.
Ég vil leggja á það áherslu og undirstrika að eignir KEA hafa ekki brunnið upp eða orðið að engu í gegnum þessar breytingar. Félagsmönnum og B-hluthöfum hefur þegar verið greidd 28,4% af sameiginlegum eignum félagsins eins og þær voru við árslok 2001. Félagsmenn í KEA svf., sem eru um 7.500, hafa nú augsýnilega persónulega hagsmuni með félaginu sem hluthafar í Kaldbaki. KEA er jafnframt skuldlaust félag og heldur á jafngildi 71,6% þeirra eigna félagsins sem áður voru í óskiptri sameign. Nú eiga allir félagsmenn jafnt tilkall til eigna félagsins á hverjum tíma og má leika sér að því að deila með 7.500 (félagsmönnum) í heildareignir félagsins. Miðað við að eignir KEA nemi 2,5-3 milljörðum króna, er eign hvers félagsmanns um 330-400.000 krónur auk þess sem hver félagsmaður á beint í Kaldbaki hf. Sé heildareign KEA metin á hærri eða lægri tölur breytist niðurstaða reikningsdæmisins í samræmi við það. Það þarf alveg klárlega ekki mikinn frekari rökstuðning til að sýna fram á að félagsmenn eiga mikla hagsmuni með félaginu og beina fjármuni sem skipta miklu máli fyrir félagssvæðið, segir Benedikt Sigurðarson.
Aðrir fjármunir KEA
Eins og áður segir stóð KEA að kaupum á Norðurmjólk og heldur á 13% hlut í fyrirtækinu. Kaupfélag Skagfirðinga á kauprétt að eignarhlutnum til næstu þriggja ára. Kaupi KS ekki hlutinn á þeim tíma munu aðrir eigendur Norðurmjólkur leysa til sín eignina. Endanlegt verð þessa hlutar hefur ekki verið ákvarðað af yfirdómi sem senn mun taka til starfa í samræmi við samkomulag Auðhumlu og KEA þegar félagið afhenti samvinnufélagi mjólkurframleiðenda allt að 34% eign í samlaginu.
Síðastliðið vor keypti KEA ríflega 20% hlut í MT-bílum í Ólafsfirði, sem m.a. smíðar yfirbyggingar á slökkvibíla, og greiddi fyrir það 17 milljónir króna.
Þá stendur KEA að baki Kaldbaki varðandi þátttöku í endurreisn Skinnaiðnaðar á Akureyri. Ekki hefur verið endanlega ákveðið hvernig aðkoma félagsins verður að því máli.
Þetta eru dæmi um að KEA er byrjað að taka þátt í fjárfestingum á félagssvæðinu í samstarfi við aðra aðila eins og fyrirheit hafa verið gefin um. Til skoðunar er að KEA komi að ýmsum fleiri fjárfestingakostum, sem verður vonandi unnt að greina frá á næstunni segir Benedikt.
Samruni Hlutabréfasjóðs Íslands hf. við Kaldbak
Unnið hefur verið að undirbúningi þess að skrá Kaldbak fjárfestingarfélag hf. í Kauphöll Íslands og skal því lokið í síðasta lagi við árslok 2002. Samhliða þeirri vinnu er einnig unnið að samruna Hlutabréfasjóðs Íslands hf. við Kaldbak sem einungis þarfnast samþykkis hluthafafunda félaganna. Við þessa stækkun Kaldbaks um 440 milljónir króna . er hlutafé Kaldbaks metið á genginu 4,21. Hvert endanlegt útboðsgengi Kaldbaks í skráningu verður er erfitt um að spá, en matsverðið í samrunanum er þó vísbending um virði bréfanna í Kaldbaki. Í þessu sambandi er ástæða til að vara hluthafa við því ef einhverjir eru að reyna að safna að sér hlutum á undirverði núna næstu vikurnar, segir Benedikt.
Innlánsdeildin flutt til Íslandsbanka
Eins og fram hefur komið gerðu KEA og Kaldbakur hf. nýverið samning við Íslandsbanka um að taka við rekstri Innlánsdeildar KEA og tók samningurinn gildi 20. september sl. Nú þegar hafa þeir 1100 aðilar sem áttu innistæður í Innlánsdeild KEA fengið bréf þar sem þetta var kynnt.
Með þeirri eðlisbreytingu sem orðið hefur á KEA var óeðlilegt og ómögulegt að félagið héldi áfram rekstri innlánsdeildar, enda samræmist það hvorki hlutverki KEA né þeim breytingum sem hafa orðið á bankastarfsemi í landinu. Við töldum því eðlilegt að flytja þessa starfsemi yfir til peningastofnunar sem veitir alhliða fjármálaþjónustu, segir Benedikt þegar hann er spurður um ástæður þess að ákveðið var að fela fjármálastofnun rekstur Innlánsdeildar KEA.
Benedikt bendir á að samningurinn við Íslandsbanka hafi átt sér nokkuð langan aðdraganda og beri að skoða hann sem eitt af síðustu skrefum í þeim breytingum á KEA að vera áður félag með margháttan og umfangsmikinn rekstur í að vera hreint samvinnufélag sem komi að ýmsum fjárfestinga- og framfaraverkefnum á félagssvæðinu í samstarfi við aðra aðila.. Það lá fyrir á síðasta ári, segir Benedikt, og kom m.a. fram á deildarfundum og á aðalfundi 2002, að Kaldbakur héldi á innlánsdeildinni til bráðabirgða á meðan unnið væri að því að koma henni fyrir innan bankastofnana.
Um ástæður þess að samið var við Íslandsbanka um að taka yfir rekstur Innlánsdeildar KEA, en ekki Landsbanka Íslands, sem lengi hefur verið aðal viðskiptabanki KEA, segir Benedikt að Íslandsbanki hafi sýnt innlánsdeildinni meiri áhuga en Landsbankinn og því hafi verið samið við Íslandsbanka. Vonandi reynist sá samningur hagstæður. Ég vil undirstrika að þeir sparifjáreigendur sem áttu fjármuni í Innlánsdeild KEA hafa að sjálfsögðu alla möguleika til þess að staðsetja sitt fé hjá þeim aðilum sem þeir treysta best á hverjum tíma, segir Benedikt og bætir við að þeir tæplega 1100 félagsmenn KEA sem áttu innstæður í deildinni, hafi margir hverjir ávaxtað sitt sparifé hjá félaginu um langan tíma og þannig reynst afskaplega tryggir viðskiptamenn. Félaginu hefur á móti oft á tíðum tekist að tryggja góða ávöxtun og á stundum þá bestu sem boðist hefur á almennum innlánum. Ég vil ítreka þakkir til félagsmanna fyrir viðskiptin og óska þess að þessi stutti fyrirvari sem gafst til að kynna endanlega breytingu skapi engum alvarlegt óhagræði, segir Benedikt Sigurðarson.
Styrktarverkefni með HA og byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið
Fyrir liggur ákvörðun stjórnar KEA um að Menningar- og viðurkenningarsjóður KEA úthluti tvisvar á ári í samræmi við reglugerð sjóðsins. Á næstunni verður auglýst eftir umsóknum um styrki og samstarfsverkefni sjóðsins. Af öðrum verkefnum sem Benedikt Sigurðarson segir að KEA hafi unnið að séu:
· KEA hefur komið á framfæri áhuga stjórnar félagsins á því að eiga aðild að undirbúningsfélagi vegna hugsanlegra Vaðlaheiðarganga. Stjórn KEA væntir þess að sú athugun geti farið fljótt af stað og skilað niðurstöðu innan árs.
· KEA vinnur að því að efla og stofna staðbundna fjárfestingarsjóði á félagssvæðinu í samstarfi við sparisjóði og heimaaðila.
· KEA er aðili að Frumkvöðlasetri Norðurlands í gegnum samstarf við Sparisjóð Svarfdæla. Stjórn KEA lítur á þetta sem mikilvægt verkefni sem kalli á víðtækt samstarf um nýsköpun og atvinnuþróun. Þess er vænst að gott samstarf náist við iðnaðarráðherra um uppbyggingu Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands á Akureyri í samstarfi við Frumkvöðlastur Norðurlands og atvinnuþróunarfélögin á svæðinu.
· Stjórn KEA hefur komið á framfæri áhuga á samstarfi við iðnaðarráðherra og aðra opinbera aðila varðandi sérstaka byggðaáætlun fyrir Eyjafjarðarsvæðið og ekki síst aðgerðaáætlun í samstarfi við opinbera aðila og fyrirtæki á félagssvæðinu. Stjórn KEA væntir þess að slíkt samstarf takist þannig að KEA geti unnið sem víðtækast starf í þágu félagsmanna og hagsmuna félagssvæðisins í góðu samkomulagi við stjórnvöld og sveitarfélög og fyrirtæki.
· Stjórn KEA hefur lýst áhuga á því að félagið standi að styrktarverkefnum í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Til greina getur komið að slík styrktarverkefni verði unnin í samstarfi við fleiri aðila (önnur fyrirtæki) en umfram allt verði haft að leiðarljósi að þau færi Háskólanum og félagssvæðinu viðbót við það sem fyrir er og auki við þau tækifæri sem bjóðist í menntun, rannsóknum og þróunarstarfi.
Ráðning framkvæmdastjóra KEA
Stjórn KEA hefur hafið undirbúning að ráðningu framkvæmdastjóra félagsins, en Eiríkur S. Jóhannsson lét af starfi kaupfélagsstjóra á aðalfundi KEA í júní sl. og gegnir nú starfi framkvæmdastjóra Kaldbaks hf. Benedikt Sigurðarson segir ljóst að eðlisbreyting á KEA kalli á nýjar skilgreiningar og annað hlutverk fyrir framkvæmdastjóra félagsins. Næstu vikur verði unnið að því að skilgreina þetta hlutverk nánar og síðan verði formlega hafin leit að einstaklingi með þá þekkingu og reynslu sem sóst verði eftir.
Jafnframt segir Bendikt að reyni á hvaða hlutverk stjórn félagsins og embættismenn stjórnar, formaður, varaformaður og ritari, eigi að sinna gagnvart starfsemi félagsins. Fulltrúaráði, þ.e. stjórn og deildarstjórnum, er ætlað hlutverk samkvæmt samþykktum félagsins og ég tel mikilvægt að nota þann vettvang til að efla lýðræði í félaginu. Þegar beinum rekstri í gegnum sjóði félagsins hefur verið hætt kemur upp möguleiki til að virkja þátttöku félagsmanna um stefnumótun og áherslur með allt öðrum hætti en raunin hefur verið síðustu ár og ef til vill áratugi. Nú reynir því á hvernig til tekst og ættu félagsmenn og kjörnir fulltrúar félagsdeilda að kappkosta að taka þátt í þeim skrefum sem framundan eru, segir Benedikt.
Þar til búið verður að ráða framkvæmdastjóra KEA annast Rúnar Sigursteinsson, starfsmaður Kaldbaks hf., og Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA, daglega umsýslu félagsins. Rúnar er með fasta viðtalstíma á þriðjudögum kl. 10-12 á annarri hæð í kaupfélagshúsinu við Hafnarstræti á Akureyri og Benedikt er með viðtalstíma á sama stað kl. 16-18 á þriðjudögum. Félagsmenn og aðrir þeir sem eiga erindi við KEA svf. er bent á að hafa samband við Rúnar eða Benedikt.
Hugmyndir um endurbyggingu gamla bögglageymsluhússins
Fyrir nokkrum árum keypti Akureyrarbær sem kunnugt er hin gömlu iðnaðarhús KEA í Grófargili og þar er nú rekin öflug og fjölbreytt menningarstarfsemi. Stjórnarformaður KEA segir vilja til þess hjá stjórn félagsins og því sjónarmiði hafi verið komið á framfæri við menningarmálanefnd Akureyrarbæjar, að þessi gömlu KEA-hús verði merkt með einum eða öðrum hætti og sögu þeirra verði þannig haldið vel til haga. Þar með væri unnt að sýna nútímanum hversu mikinn þátt KEA átti í atvinnuþróun og mannlífi liðins tíma um leið og félagið legði verulega að mörkum til að skapa gestum og gangandi afþreyingu í nánd við Miðbæ Akureyrar. Um leið væri félagið og merki þess, græni tígullinn, sýnilegt í bæjarlífinu um nána framtíð. Vonandi næst gott samkomulag við menningarmálanefnd Akureyrar og hagsmunaaðili í Gilinu um þessa framkvæmd alla, segir Benedikt.
Gamla bögglageymsluhúsið í Grófargili, sem áður hýsti sláturhús, mjólkursamlag og afgreiðslu, er í eigu Kletta fasteignafélags. Vilji er til þess af hálfu stjórnar KEA að ráðast í endurbætur á þessu fornfræga húsi og segir Benedikt stjórnarformaður að þegar sé hafinn undirbúningur að því verki. Fyrsta skref í þá átt sé að mæla húsið upp og síðan verði tekin ákvörðun um næstu skref. Hann segist sjá fyrir sér að húsið henti vel til menningarstarfsemi af ýmsum toga, en það komi í ljós í fyllingu tímans.
Kynningarfundir á næstunni
Á næstu vikum efnir KEA til funda með sveitarstjórnarmönnum og forráðamönnum í atvinnulífinu á félagssvæðinu þar sem starfsemi KEA verður kynnt og skipst á skoðunum um möguleg verkefni sem félagið geti komið að. Á þessum fundum verða stjórnarmenn í KEA sem og stjórnendur deilda félagsins. Benedikt Sigurðarson leggur áherslu á virkni félagsmanna á öllu svæðinu til þess að ákvarða hvaða verkefni KEA taki þátt í. Mikilvægt er að KEA líti á sig sem samstarfsaðila um verkefni í atvinnumálum og á öðrum sviðum, enda er það skilgreint þannig í stefnumótun félagsins að KEA eigi ekki meira en 40% í einstökum verkefnum, segir Benedikt.