Með staðfestingu stjórna Kaupfélags Eyfirðinga samvinnufélags (svf.) og fjárfestingafélagsins Kaldbaks hf. í dag, föstudaginn 8. mars, um breytingu á eignaraðild Kaldbaks hf., liggur fyrir að KEA svf. mun á þesssu ári hafa til ráðstöfunar röskan hálfan milljarð króna til nýrra fjárfestinga.
UMeð staðfestingu stjórna Kaupfélags Eyfirðinga samvinnufélags (svf.) og fjárfestingafélagsins Kaldbaks hf. í dag, föstudaginn 8. mars, um breytingu á eignaraðild Kaldbaks hf., liggur fyrir að KEA svf. mun á þesssu ári hafa til ráðstöfunar röskan hálfan milljarð króna til nýrra fjárfestinga.
Um síðustu áramót tók Kaldbakur hf. við öllum eignum og skuldbindingum KEA og nam þá hlutur KEA svf. í Kaldbaki tæpum 72%. Hin 28% í Kaldbaki skiptust á fyrrum og núverandi félagsmenn í A- og B-stofnsjóði KEA.
Hlutafjáraukning í Kaldbaki hf.
Nú hefur verið ákveðið að auka hlutafé í Kaldbaki hf. um allt að 500 milljónir króna að nafnverði og þar af kaupa Lífeyrissjóður Norðurlands og Samherji hf. samtals 371 milljón króna af hlutafjáraukningunni á genginu 3,5. Jafnframt kaupir Kaldbakur hf. eigin hlutabréf af KEA svf., allt að 10% af heildarhlutafé Kaldbaks eftir hlutafjáraukninguna, á genginu 4,0 eða u.þ.b. 137 milljónir króna að nafnverði. Þetta þýðir að eignarhlutur KEA svf. í Kaldbaki hf. lækkar úr tæpum 72% í 46,9% og markmið KEA svf. er að hann muni lækka enn frekar. Eignabreyting á Kaldbaki hf. og kaup Kaldbaks á eigin hlutabréfum af KEA svf. gerir það að verkum að samvinnufélagið fær til ráðstöfunar röskan hálfan milljarð króna til að taka þátt í nýjum verkefnum á félagssvæðinu og er því í stakk búið til þess að takast á við nýtt hlutverk mun fyrr en búist var við.
Byggðafestufélagið KEA svf.
Það skref sem stigið hefur verið í dag er í fullu samræmi við þá stefnumörkun sem aðalfundur í Kaupfélagi Eyfirðinga samþykkti á síðasta ári með aðgreiningu á rekstri KEA-samvinnufélags og fjárfestingafélagsins Kaldbaks hf. frá síðustu áramótum og staðfest var með nýjum samþykktum fyrir samvinnufélagið í desember sl. Grunnurinn að því að Kaupfélag Eyfirðinga svf. nái að sinna þeirri byggðafestu á félagssvæðinu sem félagið ætlar sér til framtíðar, samkvæmt samþykktum þess, er að fjárfestingarfélagið Kaldbakur hf. ávaxti eignir þess vel og innkoma Samherja hf. og Lífeyrissjóðs Norðurlands í Kaldbaki hefur mikið að segja í þeim efnum.
KEA svf. tekur þátt í nýjum verkefnum
Að undanförnu hefur stjórn KEA svf. unnið að því að setja sér fjárfestingastefnu vegna þeirra verkefna sem félagið er nú reiðubúið að taka þátt í. Gert er ráð fyrir að KEA svf. komi að verkefnum í atvinnulífinu á félagssvæðinu, sem lúti kröfum um arðsemi en einnig taki félagið þátt í verkefnum sem ekki er unnt að gera stífar arðsemiskröfur til. Þá er ljóst að KEA svf. mun leggja fjármuni til verkefna á sviði velferðar- og menningarmála.