Framkvæmdastjóri KEA, Halldór Jóhannsson, afhenti Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis styrk að fjárhæð 2,5 milljónir króna. Styrknum er meðal annars ætlað að niðurgreiða gistikostnað sjúklinga sem þurfa að leita sér lækninga fjarri heimilum sínum. Hlíf Guðmundsdóttir formaður félagsins tók við styrknum og lýsti hún ánægju sinni með þetta myndarlega framlag sem sannarlega kæmi sér vel fyrir skjólstæðinga félagins. Hún sagði ferða- og gistikostnað verulega íþyngjandi fyrir sjúklinga sem oft þurfi að dvelja langdvölum frá heimilum sínum, en ýmsar langtíma krabbameinsmeðferðir, svo sem geislameðferðir, er einungis hægt að veita á sjúkrahúsum í Reykjavík.