Dagurinn verður með svipuðu sniði og áður þó að alltaf sé eitthvað um að nýjum hugmyndum sé hrint í framkvæmd. Dæmi um slíkt er Fiskisúpukvöldið mikla sem var í fyrsta skipti í fyrra og sló svo sannarlega í gegn. Á föstudagskvöldinu fyrir Fiskidaginn mikla buðu íbúar gestum og gangandi heim til sín í fiskisúpu og vinalegheit. Ef tveir kyndlar voru logandi fyrir utan húsið var þar súpa í boði og niðurstaðan varð sú að 4800 gestir skrifuðu í gestabækur í um 30 húsum.
Sem dæmi um nýjung Fiskidagsins mikla í ár er að allar götur á Dalvík hafa fengið ný nöfn. Í eina viku heita göturnar eftir þekktum og minna þekktum fiskum t.d. breytist Mímisvegur í Risarækjuveg, Karlsrauðatorg í Blálöngutorg og Svarfaðarbraut í Lúðubraut.
Herra Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands verður heiðursgestur Fiskidagsins mikla og mun hann m.a flytja ávarp á aðalsviði um miðjan daginn.