Jón Oddgeir Guðmundsson frá Hjálparstarfi kirkjunnar og Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, markaðs- og kynningarfulltrúi KEA, með hluta af matarpokunum á skrifstofu KEA í morgun, en í það heila færir KEA í samstarfi við Norðlenska Hjálparstarfi kirkjunnar 70 ma
KEA í samstarfi við Norðlenska hefur fært Hjálparstarfi kirkjunnar 70 matarpoka, sem verða afhentir skjólstæðingum Hjálparstarfsins núna í aðdraganda jólanna. Jón Oddgeir Guðmundsson veitti matarpokunum viðtökum í morgun úr hendi Ingibjargar Aspar Stefánsdóttur, markaðs- og kynningarfulltrúa KEA.Þetta er annað árið í röð sem KEA réttir Hjálparstarfi kirkjunnar hjálparhönd með þessum hætti, en í hverjum matarpoka er KEA-hamborgarhryggur frá Norðlenska og meðlæti. Jón Oddgeir Guðmundsson hefur undanfarin tólf ár starfað á Akureyri fyrir Hjálparstarf kirkjunnar og segir hann að þörfin fyrir aðstoð í aðdraganda jólanna hafi aukist ár frá ári. Fyrir síðustu jól hafi hátt í 70 aðilar leitað aðstoðar Hjálparstarfsins og hann á von á því að svipaður fjöldi einstaklinga og fjölskyldna leiti aðstoðar í ár, en rétt er að taka fram að aðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar tekur til Eyjafjarðarsvæðisins og Þingeyjarsýslna. Úthlutun Hjálparstarfs kirkjunnar hefst á morgun, 16. desember, í Glerárkirkju á Akureyri og stendur til 22. desember. Beiðnir um aðstoð berast prestum á Eyjafjarðarsvæðinu og í Þingeyjarsýslum og þeir vísa þeim síðan til Hjálparstarfs kirkjunnar. “Fyrir marga eru það ákaflega þung spor að leita aðstoðar,” segir Jón Oddgeir og er afar þakklátur fyrir þann stuðning sem KEA í samstarfi við Norðlenska hafi sýnt Hjálparstarfi kirkjunnar með þessum hætti.