KEA rekið með 60,6 milljóna króna hagnaði fyrir skatta árið 2003

Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga svf. hefur í dag fjallað um og samþykkt ársreikning félagsins 2003. Löggiltur endurskoðandi félagsins hefur endurskoðað uppgjörið og áritað það án fyrirvara. Kaupfélag Eyfirðinga svf. var rekið með 60,6 milljóna króna hagnaði fyrir skatta en 46,6 milljóna króna hagnaði Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga svf. hefur í dag fjallað um og samþykkt ársreikning félagsins 2003. Löggiltur endurskoðandi félagsins hefur endurskoðað uppgjörið og áritað það án fyrirvara. Kaupfélag Eyfirðinga svf. var rekið með 60,6 milljóna króna hagnaði fyrir skatta en 46,6 milljóna króna hagnaði að teknu tilliti til skatta. Veltufé til rekstrar nam 58,6 milljónum króna. Rekstartekjur árið 2003 námu 125,2 milljónum króna og rekstrargjöld 64,6 milljónir. Bókfært eigið fé 31.12. 2003 var 2,079 milljarðar króna. Heildareignir félagsins nema 2.514 milljónum króna og skuldir 435 millj. kr. Bókfært eigið fé er því 2.079 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 83%. Kaldbakur hf. hefur tekið að sér að greiða langtímaskuldir félagsins að eftirstöðvum 244,9 millj. króna í árslok, þar af eru 86,5 milljónir kr. færðar sem næsta árs afborganir meðal skammtímaskulda. Í reikningum félagsins er því myndaður mótreikningur við umræddar langtímaskuldir á meðal langtíma- og skammtímakrafna, sem sýnir þá kröfu sem félagið á á hendur Kaldbaki hf. Kaupfélagið keypti hinn 30. október 2003 öll hlutabréf í Norðlenska matborðinu ehf. að nafnverði 250 milljónir kr. á genginu 1,00. Félagið gekkst auk þess í ábyrgð að fjárhæð 75 millj. kr. vegna fyrirgreiðslu til Norðlenska frá viðskiptabanka sínum. Á árinu 2003 varð tap af rekstri Norðlenska að fjárhæð 193 millj. kr. Rekstur Norðlenska gekk illa á fyrri hluta síðasta árs en mun betur á seinni hlutanum og varð þá hagnaður fyrir afskriftir að fjárhæð 94 millj. kr. Eignarhlutur Kaupfélagsins í Norðlenska er færður til eignar á kaupverði en innra virði hlutabréfanna var 163,4 millj. kr. lægra í árslok. Á árinu 2004 hafa þrír aðilar keypt nýtt hlutafé í Norðlenska matborðinu fyrir samtals 83 millj. kr. og er eignarhlutur Kaupfélagsins nú 75%. Rekstraráætlun Norðlenska árið 2004 gerir ráð fyrir áframhaldandi erfiðleikum á kjötmarkaði en að félagið verði engu að síður rekið án halla. Innanhússuppgjör fyrstu tveggja mánaða er í samræmi við þá áætlun. Í árslok átti félagið hluti í fjárfestingarfélaginu Kaldbaki hf. að nafnverði kr. 473.957.112 eða 27,01% hlut og nam bókfært verð hlutarins kr. 1.244.139.210. Markaðsvirði eignarhluta í skráðum félögum var í árslok 919,6 millj. kr. hærra en bókfært verð þeirra. Félagið hefur gefið út skuldabréf sem skráð eru í Kauphöll Íslands og er þessi fréttatilkynning gefin út í samræmi við reglur um upplýsingaskyldu útgefenda skráðra skuldabréfa. Kaupfélag Eyfirðinga svf. hefur ekki lengur með höndum eiginlegan atvinnurekstur heldur starfar sem byggðafestufélag. Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunum félagsmanna og efla búsetu á félagssvæðinu, sem nær yfir Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur. Þeim tilgangi sinnir félagið einkum með að: 1. Hafa með höndum umsjón og eignarhald á hlutafé KEA í hlutafélögum og öðrum félögum og taka þátt í stjórnun þeirra. 2. Ávaxta eignir KEA og ráðstafa hæfilegum arði af þeim til félagsmanna sinna og til eflingar atvinnu og mannlífs á félagssvæðinu. 3. Hafa frumkvæði að því að stofna til fjárfestingar og nýsköpunar í atvinnurekstri á félagssvæðinu og kalla eftir samstarfi við opinbera aðila, við fyrirtæki, fjárfesta og einstaklinga í því skyni að efla atvinnulíf. 4. Leita samninga um viðskiptakjör fyrir félagsmenn. Á árinu veitti Kaupfélagið margvíslega styrki til mennta- og atvinnumála, menningar,- líknar- og æskulýðsstarfsemi að fjárhæð samtals um 30 milljónir króna og eru þeir gjaldfærðir í uppgjörinu. Félagsmenn í Kaupfélagi Eyfirðinga svf. eru á áttunda þúsund talsins og eiga allir jafnan hlut.