Ritað var undir samning um kaup á fíkniefnahundinum í dag og jafnframt var verkefnið kynnt fréttamönnum. Þessi mynd var tekin við það tækifæri. Frá vinstri: Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, Baldur Dýrfjörð, formaður Barnaverndarnefndar Eyjafjarða
KEA og Sparisjóður Norðlendinga hafa tekið höndum saman og tryggt fjármögnun á fíkniefnaleitarhundi sem ætlaður er fyrir Norðurland. Markmiðið er að til Akureyrar fáist vel þjálfaður fíkniefnaleitarhundur, sem m.a. getur tekið þátt í leit fíkniefna á fjölmennum stöðum, s.s. á skemmtistöðum, útisamkomum o.s.frv.Fíkniefnaleitarhundurinn sem lögreglan á Akureyri er með í dag hefur takmarkaða leitargetu. Hann hefur aðeins þjálfun í að leita í farangri, farmi o.s.frv. en getur ekki leitað innan um fólk. Engu að síður hefur hann sannað gildi sitt við rannsóknir og uppljóstrun mála, auk þess að hafa mikið forvarnargildi. En með enn öflugri fíkniefnaleitarhundi, sem lögreglan á Akureyri fær á næsta ári, er ljóst að fíkniefnaleit verður enn öflugri en áður. Fullþjálfaður fíkniefnaleitarhundur með framangreinda eiginleika kostar um tvær milljónir króna og er markmiðið að næsta vor verði kominn nýr fíkniefnaleitarhundur til lögreglunar á Akureyri sem geti þjónað Norðurlandi. KEA leggur eina milljón króna til verkefnisins og Sparisjóður Norðlendinga eina milljón. Gert er ráð fyrir að hundurinn komi frá Bretlandi, en hann verður til þjálfunar hjá Rolf van Krog, hundaþjálfara í Noregi, áður en hann kemur til Íslands.