KEA og Norðlenska - greinargerð

Eins og fram hefur komið hérna á heimasíðunni samþykkti stjórn KEA þann 30. ágúst sl. að félagið myndi ganga til samninga við Kaldbak hf. um kaup á öllum hlutabréfum Kaldbaks í Norðlenska matborðinu hf. Um er að ræða 99% eignarhlut. Á þeim tæpa mánuði sem liðinn er frá þessari stjórnarsamþykkt Eins og fram hefur komið hérna á heimasíðunni samþykkti stjórn KEA þann 30. ágúst sl. að félagið myndi ganga til samninga við Kaldbak hf. um kaup á öllum hlutabréfum Kaldbaks í Norðlenska matborðinu hf. Um er að ræða 99% eignarhlut. Á þeim tæpa mánuði sem liðinn er frá þessari stjórnarsamþykkt KEA svf. hefur verið unnið að málinu á ýmsum vettvangi. Til að varpa ljósi á stöðu málsins á þessum tímapunkti hefur Benedikt Sigurðarson, stjórnarformaður KEA, tekið saman eftirfarandi greinargerð. “Allt frá árinu 1998 þegar fyrirtækjavæðing KEA var formlega sett á dagskrá var sérstaklega horft á aðkomu bænda að afurðastöðvum KEA. Undirritaður setti fram þá hugmynd á þeim tíma að framleiðendum sem myndað hefðu eign í afurðastöðvum fengju afhenta eign í samræmi við framreiknuð viðskipti sl. 20-25 ár þar sem um væri að ræða skráða viðskiptasögu (Mbl.8.des 1998). Í Mjólkursamlagi KEA hafði verið myndaður sérstakur stofnsjóður og sjálfstætt uppgjör framkvæmt að hluta. Sá stofnsjóður var hins vegar greiddur út fyrir meira en 15 árum. Ekki var sérstakur stofnsjóður myndaður í sláturhúsi og Kjötiðnaðarstöð KEA. Mjólkin Við sameiningu mjólkursamlaga KEA og KÞ voru gefnar ákveðnar yfirlýsingar um að frameiðendum yrði tryggð eignaraðild að nýju fyrirtæki. Mjólkurframleiðendum var síðan afhent þriðjungs eign í Norðurmjólk gegn viðskiptasamningum við fyrirtækið á árinu 2000. Síðan hefur Auðhumla, félag framleiðenda, keypt Norðurmjólk 100% í samstarfi við aðila í mjólkuriðnaði og með aðstoð KEA. Ekki var hins vegar byggt á fyrri viðskiptum við ákvörðun eignarhlutar, heldur fengu þeir einir, sem voru í framleiðslu og gerðu viðskiptasamning við Norðurmjólk, hlutdeild í eigninni. Sú hlutdeild er í gegnum samvinnufélag framleiðenda. Samvinnufélagsformið – sem eignarhaldsfélag í þessu tilfelli – hefur þann augljósa galla að ekki er auðvelt að auka eigið fé þess félags til frekari fjárfestinga. Einnig er það mikill galli að þeir sem fara út úr framleiðslu geta ekki selt frá sér sinn hlut í Norðurmjólk fyrir sannvirði – né nýtt sér þessa eignamyndun til að bakka upp eignamyndun bús síns. Þarna sýnist mér að samvinnuhlutafélag hefði getað verið miklu öflugra form – til þeirra átaka sem þörf er á við að efla Norðurmjólk og markaðsstöðu fyrirtækisins. Staða Norðlenska Við umbreytingu KEA og yfirfærslu eigna til Kaldbaks hf. lá það ljóst fyrir að bændur hefðu mikilsverða hagsmuni gagnvart öflugum rekstri sláturhúsa og kjötvinnslu á svæðinu. Fjárhagsleg staða þeirra greina hins vegar hefur ekki gert það fýsilegt að fjárfesta – eða stofna til umtalsverðar áhættu. KEA keypti Goða og sameinaði Norðlenska á árinu 2001 með það fyrir augum að tryggja og efla kjötvinnslu á Akureyri og Húsavík og standa vörð um hagsmuni framleiðenda á svæðinu í gegnum þann markaðsaðgang sem Goði og vörumerki KEA og KÞ hefðu. Þetta hefur tekist að mestu leyti – en reynst langtum dýrara en áætlað var. Norðlenska hefur tapað öllu eigin fé frá árinu 2001. Tapið hefur numið meira en 500 milljónum króna á þessum tíma. Fjögur atriði vega þar þyngst: 1. Birgðir sem keyptar voru af þrotabúi Goða reyndust ekki standa undir því verðmæti sem reiknað var með. Annars vegar vegna þess að í frystigeymslum fannst ekki það magn sem veðhafar afurðalána höfðu fjármagnað og hins vegar vegna þess að á fyrrihluta ársins 2001 þegar kaupverð Goða var ákveðið var verð á lambakjöti í sögulegu hámarki. Við verðákvörðun haustsins 2001 féll hins vegar verðmæti birgða Norðlenska um 16-20% - en þær voru keyptar fullu verði fáeinum mánuðum áður. 2. Ástand kjötmarkaða hefur verið óheilbrigt, sérstaklega síðustu tvö árin, með margvíslegum undirboðum á lambakjötsmarkaði og mikilli offramleiðslu á hvítu kjöti með tilheyrandi niðurgreiðslum af hálfu fjármálastofnana. 3. Kostnaður Norðlenska af þeirri hagræðingu sem unnið hefur verið að frá árinu 2001 hefur reynst miklu meiri en gert var ráð fyrir. Þannig hefur lokun vinnslustöðva í Reykjavík og Borgarnesi – og sameining kjötvinnsla á Húsavík og við Bautabúrið orðið mjög dýr. Ekki fengust styrkir frá Byggðastofnun vegna þessara aðgerða eins og búið var að lofa öðrum aðilum og eðlilegt var að reikna með að kæmu Norðlenska til góða. Lokanir vinnslustöðva hafa leitt til þess að efnahagur Norðlenska hefur hjaðnað og bókfært tap vega sölu á aflögðum eignum hefur orðið dýrkeypt. 4. Á árinu 2002 tók Kaldbakur við þrotabúi Íslandsfugls á Dalvík. Sú aðgerð sem ætluð var til að bjarga verðmætum tókst ekki þar sem stórar peningastofnanir héldu áfram að undirbjóða markaðinn sem aldrei fyrr. Norðlenska tók við því tapi sem þannig var stofnað til. Af reglubundnum rekstri Norðlenska hefur ekki orðið umtalsvert tap og má fullyrða að fjármunamyndun frá rekstri geti talist viðunandi um þessar mundir. Tæknilega er Norðlenska ótvírætt í fremstu röð varðandi mikilvæga þætti í úrbeiningu og vinnslu á lambakjöti, svínakjöti og nautkjöti. Vinnslulínur fyrirtækisins skapa betri nýtingu og hagkvæmari vinnslu en samkeppnisaðilar ráða við. Vinnslulínur Norðlenska gera kleift að upplýsa framleiðendur um gæði gripa langt umfram það sem aðrir sláturleyfishafar geta gert um leið og rekjanleiki og upprunamerking framleiðsluvara verður í fremstu röð. Upplýsingakerfi fyrirtækisins er þannig að unnt er að fylgjast með rekstri hverrar einingar og greina verðmyndun og nýtingu einstakra vöru- og afurðaflokka. Norðlenska hefur náð mjög góðum árangri í sölu á lambakjöti – bæði á innanlandsmarkaði og í Bandaríkjunum og hefur verið í samstarfi við Fjallalamb, Sláturfélag Austurlands og Sláturfélagið Búa á Höfn í Hornafirði. Norðlenska hefur tekist að selja umtalsvert meira magn af lambakjöti síðustu árin heldur en slátrað er hjá félaginu og hefur þannig komist hjá allri birgðasöfnun. Markaðsstaða vörumerkja félagsins er öflug. Aðdragandi kaupa KEA á 100% hlutafjár í Norðlenska Frá árinu 2001 þegar Norðlenska keypti Goða og sameinaði kjötvinnslur á Akureyri og Húsavík hefur verið afar lítil og óformleg umræða um það með hvaða hætti kjötframleiðendur kæmu að beinni eign í fyrirtækinu. Frá þeim tíma hefur ástand á kjötmarkaði verið vægast sagt erfitt – fyrir allar tegundir framleiðslu og framleiðendur hafa gengið í gegnum afar harkalegar breytingar. Kaldbakur sem hélt á allri fyrri eign KEA í afurðavinnslu lýsti vilja til að vinna með kjötframleiðendum að endurfjármögnun á vinnslu og slátrun á Norðausturlandi. Í upphafi ársins 2003 lá fyrir að eigið fé Norðlenska myndi ganga til þurrðar og í því samhengi sneru forráðamenn Kaldbaks sér til fulltrúa búnaðarsambanda í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu með tilboð um samvinnu við að endurfjármagna fyrirtækið með það fyrir augum að framleiðendur myndu á nokkrum árum eignast Norðlenska að meirihluta – og síðan að fullu. KEA fylgdist með þessu máli frá byrjun ársins – enda miklir hagsmunir að verja þar sem KEA var á þeim tíma langstærsti eigandi Kaldbaks – og staðbundnir atvinnuhagsmunir á félagssvæðinu gríðarlegir – bæði í þéttbýli og í sveitum. Í ágúst sl. var á borðinu vinnuhugmynd um endurfjármögnun Norðlenska í samstarfi KEA, Kaldbaks, Akureyrarbæjar, Húsavíkurbæjar, fulltrúa kjötframleiðenda og fleiri aðila. Þessi vinnuhugmynd gekk út á að framleiðendur myndu fjármagna nærri 1/3 af hlutafé í upphafi og KEA og bæjarfélögin keyptu hlutafé í Norðlenska með skýrri skuldbindingu af hálfu framleiðenda varðandi kaupskyldu innan 4-7 ára. Jafnframt var gert ráð fyrir að samstarfsaðilar mundu fá skýrar tryggingar fyrir að þeir ættu útgönguleið – þegar framleiðendur hefðu keypt ráðandi hlut í félaginu. Fyrir lá undirrituð viljayfirlýsing frá fulltrúum Búnaðarsambanda í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu um að framleiðendur stofnuðu með sér félagsskap með það að markmiði að eignast Norðlenska í áföngum. Forráðamenn Sláturfélags Austurlands voru í samstarfi við Búnaðarsambönd fyrir norðan um athugun á þessu máli og einnig var forráðamönnum Fjallalambs kunnugt um ferli málsins. Kaupfélag Héraðsbúa hafði einnig aðgang að gögnum varðandi þessa athugun. Vegna þessarar vinnu hafði stjórn Norðlenska ákveðið við upphaf sauðfjárslátrunar að halda eftir 4% af verði afurða til að fjármagna hlutafjárkaup framleiðenda í félaginu. Hröð atburðarás Málið tók hins vegar nokkur skarpa beygju þegar tilboð barst frá samkeppnisaðila - fh. óstofnaðs félags - í öll hlutabréf Kaldbaks í Norðlenska. Tilboðið hafði ströng tímamörk og við þær aðstæður skapaðist pressa sem mikilvægt var að bregðast við. Að ósk stjórnarformanns KEA frestaði stjórn Kaldbaks því að svara tilboðinu þar sem Kaldbakur hafði auk þess verið aðili að undirbúningi tillögu í öðrum farvegi – með heimamönnum. Fulltrúar búnaðarsambandanna í Eyjafirði og S-Þingeyjarsýslu ásamt fulltrúum búgreinafélaganna á svæðinu funduðu föstudagskvöld 29. ágúst 2003. Á þeim fundi undirrituðu þeir ósk til stjórnar KEA um að Kaupfélag Eyfirðinga myndi freista þess að kaupa öll hlutabréf Kaldbaks í Norðlenska. Jafnframt lýstu þessir fulltrúar þeirri ákvörðun að framleiðendur mundu vinna að stofnun félags sem keypti hlutafé fyrir 100 milljónir í fyrstu – en með það markmið að eignast meirihluta í Norðlenska og síðan félagið að fullu. Laugardaginn 30. ágúst fól stjórn KEA framkvæmdastjóra félagsins, Andra Teitssyni, að gera tilboð í öll hlutabréf Kaldbaks í Norðlenska. Um þetta var einhugur í stjórn KEA þar sem fyrir lá að fulltrúar framleiðenda höfðu lagt í greinargóða undirbúningsvinnu vegna málsins og áhugi virðist vera almennur á viðgangi fyrirtækisins á svæðinu. Jafnframt liggur fyrir að Akureyrarbær og Húsavíkurbær hafa staðfest vilja til að koma að málinu eins og áður kom fram. Á grundvelli þess tilboðs ákvað stjórn Kaldbaks síðan að ganga til samninga við KEA um viðskipti með Norðlenska. Gert er ráð fyrir að Kaldbakur breyti kröfum í hlutafé og lengra lán og létti þannig verulega á félaginu. Vinnan þessa dagana Síðustu vikur hefur Kaldbakur unnið að því að leysa til sín allt hlutafé í Norðlenska og í framhaldinu mun gengið frá samningum um kaup KEA á öllu hlutafénu. Ný stjórn hefur verið kjörin í Norðlenska og er hún skipuð fulltrúum KEA. Andri Teitsson er stjórnarformaður og aðrir í stjórn eru Haukur Halldórsson og Benedikt Sigurðarson. Varamaður í stjórn er Björn Friðþjófsson. Þessa dagana er unnið að því að fara í gegnum fjármál félagsins – umfram breytingu á kröfum Kaldbaks í hlutafé og annarra krafna í lengri lán. Unnið er að því að ná fram frekari hagræðingu í rekstri Norðlenska og lækka kostnað eftir því sem skynsamlegt er. Rekstur Norðlenska er nú í þokkalegu jafnvægi og miðað við vonir um að nokkurt jafnvægi muni skapast á kjötmarkaði á næstu 10-16 mánuðum, má telja rekstrarhorfur allgóðar. Rétt er að undirstrika eins og áður er komið fram að tap Norðlenska á síðustu þremur árum hefur ekki skapast af venjulegum rekstri nema að óverulegu leyti, heldur má einkum rekja það til afskrifta eigna við lokun starfsemi, taps af glötuðum birgðum og taps af rekstri óskyldra aðila. KEA vinnur með fulltrúum kjötframleiðenda í Eyjafirði, S-Þing. og á Austurlandi að því að ganga frá tillögum um félagsform og stofnun samvinnu-hlutafélags framleiðenda. Gengið er út frá því að félagið verði stofnað fyrir áramót. Á þeim tímamótum munu þeir fjármunir sem Norðlenska hefur haldið eftir af afurðaverði (4%) greiðast inn til hins nýja félags – í nafni viðkomandi framleiðenda. Þá er þess vænst að fjármögnun verði tryggð fyrir félag þeirra – til 4-8 ára framundan. Leitað verður eftir ábyrgðum á þeirri fjármögnun – með viðskiptasamningum framleiðenda og Norðlenska annars vegar og með bakábyrgðum annarra aðila hins vegar. Að frumkvæði KEA hefur verið leitað eftir því að stórir viðskiptaaðilar Norðlenska - t.d. í tryggingum og flutningum - komi að endurfjármögnun félagsins gegn viðskiptasamningum til lengri tíma, sem tryggi félaginu félaginu hagstæðustu kjör. Til að fylgja eftir þessari beiðni mun á næstu vikum liggja fyrir: - “Frumvarp” um samsetningu eigendahóps og skiptingu hlutafjár. - Samþykktir fyrir félag framleiðenda – um eignarhald á Norðlenska. - Gagnkvæmir viðskiptasamningar kjötframleiðenda við Norðlenska. - Tillaga að hlutahafasamkomulagi sem felur í sér áætlun um það með hvaða hætti framleiðendur skuldbinda sig gagnvart samstarfsaðilum – um kaup á auknum hlut og síðan öllu hlutafé Norðlenska. - Greining á fjárhagslegri stöðu Norðlenska, áætlað uppgjör ársins 2003 og rekstraráætlanir fyrir árin 2004-2005. Næstu skref Það er mat stjórnenda KEA að það séu góðar líkur á að tryggja megi rekstur Norðlenska til framtíðar – með áframhaldandi hagræðingu og samstarfi við aðra aðila – (jafnvel sameiningu) og ná þannig fram ásættanlegri ávöxtun á þeim fjármunum sem bundnir verða í félaginu um tíma. Hugmyndir framleiðenda varðandi fjármögnun á félagi til að eignast allt hlutafé í Norðlenska hafa fengið svo jákvæðar undirtektir að þær virðast fullkomlega raunhæfar. - Gerðir verða gagnkvæmir viðskiptasamningar við einstaka framleiðendur sem tryggja Norðlenska hráefni og framleiðendum sölu á umsömdu kjötmagni. - Framleiðendur sem gera viðskiptasamning við Norðlenska fái forgang um viðskipti við félagið og verði jafnframt tryggt hærra verð fyrir umsamið magn afurða. - Markmið KEA er að Norðlenska verði fjármagnað með hlutafé þannig að rekstur verði tryggður miðað við fyrirséðar markaðsforsendur. - Jafnframt verði kaup kjötframleiðenda á hlutafé fjármögnuð þannig að innborgun á 4% af afurðaveltu fyrstu 3-4 árin verði nýtt til að stækka eignarhlut bænda í Norðlenska þannig að félagið verði í meirihlutaeign framleiðenda innan fjögurra ára. - Gengið er útfrá því að hlutahafasamkomulag aðila staðfesti áform framleiðenda um að eignast Norðlenska að fullu. Þannig verði því lýst í hvaða skrefum aðrir aðilar verða keyptir út úr félaginu – og hvaða skilmálar verða settir varðandi gengi eða verðviðmiðanir í viðskiptum aðila. Andri Teitsson framkvæmdastjóri KEA vinnur með starfshópi framleiðenda að því að greina valkosti varðandi félagsstofnun – undirbúa fjármögnun félagsins og móta tillögur um félagsform. Jafnframt er samstarf Norðlenska og starfshóps framleiðenda um inntak og form viðskiptasamninga milli aðila. Þessari vinnu verður hraðað og vonir standa til að unnt verði að kalla bændur til funda og kynna vinnuna fyrir lok október. Mikilvægt er að unnt verði að mæta einstökum framleiðendum og leita staðfestinga og undirritunar á viðskiptasamningum. Því þarf að ljúka fyrir 10. desember þannig að formleg félagsstofnun verði staðfest fyrir áramót. Á þeim tíma mun Norðlenska síðan greiða inn 4% verðhlutfall í nafni hvers einstaks bónda. Mikilvægt er einnig að þeir framleiðendur á svæðinu sem ekki hafa verið í viðskiptum við Norðlenska en vilja gera viðskiptasamning við fyrirtækið geti greitt inn hlutafé og þannig tryggt sér hlutdeild í félaginu og aðgang að sölu sinna afurða.” Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA svf.