Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, og Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, staðfesta yfirlýsingu um samstarf KEA og HA í dag.
Í dag rituðu Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri (HA), og Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar Kaupfélags Eyfirðinga samvinnufélags (svf.), undir samstarfsyfirlýsingu um styrktarverkefni. Í yfirlýsingunni lýsir KEA vilja félagsins til að kosta skilgreind verkefni innan háskólans. Í dag rituðu Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri (HA), og Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar Kaupfélags Eyfirðinga samvinnufélags (svf.), undir samstarfsyfirlýsingu um styrktarverkefni. Í yfirlýsingunni lýsir KEA vilja félagsins til að kosta skilgreind verkefni innan háskólans. Um getur verið að ræða tímabundna fjármögnun á stöðugildum prófessora, dósenta, lektora eða rannsóknarmanna við HA. Einnig geta umrædd verkefni tekið til reksturs þróunarsetra og/eða afmarkaðra eininga innan HA eða verið beinn stuðningur við rannsóknir starfsmanna eða framhaldsnámsnemendur við háskólann.
Samkvæmt yfirlýsingunni lýsir KEA vilja til að verja árlega, næstu fimm árin, fjármagni til verkefna innan Háskólans á Akureyri, eða samstarfsstofnana, sem svarar til launakostnaðar við eina prófessorsstöðu á ári, sem er á bilinu 5-7 milljónir króna. Þetta þýðir að um er að ræða samtals 25 til 35 milljónir króna fjárstyrk KEA við Háskólann á Akureyri á næstu fimm árum og segir Þorsteinn Gunnarsson, rektor HA, að þetta sé mesti fjárstuðningur eins fyrirtækis á Akureyri til þessa við Háskólann á Akureyri.
Til að undirbúa einstök verkefni koma aðilar á fót samstarfsnefnd sem skipuð skal fjórum mönnum, rektor HA, stjórnarformanni KEA og einum einstaklingi tilnefndum af hvorum aðila fyrir sig. Hlutverk samstarfsnefndar skal einkum vera að afla hugmynda um styrktarverkefni og beina þeim í þann farveg að unnt verði að ganga frá formlegum skilgreiningum og samningum um hvert og eitt verkefni.
Samstarfsyfirlýsing KEA og HA
Eftirfarandi er samstarfsyfirlýsing KEA og HA, sem stjórnarformaður KEA og rektor HA rituðu undir í dag:
Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) lýsir yfir vilja til að kosta skilgreind verkefni innan Háskólans á Akureyri (HA) samkvæmt nánara samkomulagi aðila. Um getur verið að ræða tímabundna fjármögnun á stöðugildum prófessora, dósenta, lektora eða rannsóknarmanna, rekstur þróunarsetra og/eða afmarkaðra eininga innan HA og/eða deilda og samstarfsstofnana - eða beinn stuðningur við rannsóknir starfsmanna og nemenda í framhaldsnámi við Háskólann á Akureyri.
Almenn skilyrði fyrir styrktarfjármögnun skulu vera:
· Viðbót við samþykkta starfsemi HA og/eða samstarfsstofnana.
· Aukin og útvíkkuð tækifæri fyrir starfsmenn og nemendur HA.
· Efling byggðar og tenging við atvinnulíf, menningu eða náttúrufar félagssvæðisins.
Samstarfsnefnd:
Til að undirbúa einstök verkefni koma aðilar á fót samstarfsnefnd sem skipuð skal fjórum mönnum; rektor HA, stjórnarformanni KEA og einum einstaklingi tilnefndum af hvorum aðila fyrir sig. Hlutverk samstarfsnefndar skal einkum vera að afla hugmynda um styrktarverkefni og beina þeim í þann farveg að unnt verði að ganga frá formlegum skilgreiningum og samningum um hvert og eitt verkefni. Rektor HA stýrir starfi nefndarinnar og annast kynningu á samstarfsyfirlýsingu þessari innan HA. Stjórnarformaður KEA kemur tillögum nefndarinnar á framfæri við stjórn KEA. Stjórn KEA skal staðfesta samninga um einstök verkefni áður en þeir öðlast fullt gildi.
Skilmálar verkefna:
· Um hvert einstakt verkefni skal gera nákvæma áætlun og samning við þá aðila sem málinu tengjast með beinum hætti. Í samningi skal tilgreina umfang verkefnis, rekstrarskilmála, kostnað og það með hvaða hætti verkefninu er ætlað að koma öðrum til góða. Í samningi skal einnig tilgreina þau skil sem ábyrgðarmenn verkefnisins gera til KEA og HA á verkefnistíma og við verkefnislok.
· Almennt skulu verkefni ekki standa lengur en þrjú ár í senn.
· KEA lýsir vilja til að verja til verkefna innan HA og samstarfsstofnana HA - fjármagni sem að lágmarki nemur launakostnaði við eina prófessorsstöðu á ári - næstu fimm ár.
· KEA áskilur sér rétt til að leita samstarfs við önnur fyrirtæki og aðila á félagssvæðinu um fjármögnun verkefna undir þessu samkomulagi.
Samkomulag þetta gildir í fimm ár frá undirritun en framlengist sjálfkrafa eitt ár í senn sé því ekki sagt upp af hálfu annars hvors aðila með þriggja mánaða fyrirvara.