Skrifað var í dag undir samning milli fjárfestingarfélagsins Kaldbaks og Auðhumlu, framleiðendafélags mjólkurbænda í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, um kaup Auðhumlu á 67% hlut Kaldbaks í Norðurmjólk. Starfsfólki Norðurmjólkur var kynnt þessi breyting á eignarhaldi félagsins á starfsmannafundi í hádegSkrifað var í dag undir samning milli fjárfestingarfélagsins Kaldbaks og Auðhumlu, framleiðendafélags mjólkurbænda í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum, um kaup Auðhumlu á 67% hlut Kaldbaks í Norðurmjólk. Starfsfólki Norðurmjólkur var kynnt þessi breyting á eignarhaldi félagsins á starfsmannafundi í hádeginu í dag.
Jafnframt samkomulaginu um kaupin liggur fyrir að Auðhumla mun í framhaldinu selja hluta af sínum eignarhlut til annarra aðila, þ.e. Kaupfélags Eyfirðinga, Kaupfélags Skagfirðinga, Osta- og smjörsölunnar, Mjólkurbús Flóamanna og Mjólkursamsölunnar í Reykjavík. Hluthafasamkomulag milli allra þessara aðila er fyrirliggjandi en ljóst er að mjólkurframleiðendur á félagssvæði KEA, í nafni framleiðendafélagsins Auðhumlu, verða að afloknum þessum breytingum eigendur að 40% hlutafjár í Norðurmjólk og lang stærsti einstaki hluthafinn í félaginu. Eignarskipting verður að öðru leyti þannig að KEA mun eiga 13%, Osta- og smjörsalan 12%, Mjólkurbú Flóamanna 16%, Mjólkursamsalan í Reykjavík 16% og Kaupfélag Skagfirðinga 3%.
Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, segir að aðkoma félagsins að breytingunum á eignarhaldi Norðurmjólkur byggist á tvennu. Annars vegar eignist félagið tímabundið 13% hlut í Norðurmjólk en hins vegar veiti það framleiðendafélaginu Auðhumlu fjárhagslega fyrirgreiðslu til að auðvelda framleiðendum að auka sinn eignarhlut í Norðurmjólk.
"Ég er mjög ánægður með að KEA skuli á þennan hátt geta átt þátt í að tryggja félagi mjólkurframleiðenda á félagssvæðinu sterka stöðu í fyrirtækinu og þannig innan mjólkuriðnaðarins í heild. Þar er þörf mikilla aðgerða til að ná fram hagræðingu, tryggja vöruþróun og auka arðsemi í greininni og mikilvægt að framleiðendur geti borið ábyrgð á öllu ferlinu þar til varan kemur í verslanir. Að mínu mati er KEA þannig að vinna að því að styrkja stöðu mjólkurframleiðenda á svæðinu inn í framtíðina og þannig ber KEA að vinna," segir Benedikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA.