KEA hefur keypt rúmlega 7% hlut í ferðaþjónustufyrirtækinu Saga Travel á Akureyri og kemur inn í félagið sem nýr hluthafi ásamt fjárfestingasjóðnum Eldey. Samhliða innkomu þessara aðila festi Saga Travel kaup á Geo Iceland sem hefur sérhæft sig í dagsferðum frá Reykjavík. Saga Travel hefur hingað til aðallega sérhæft sig í upplifunarferðum á Norðurlandi en hefur nú haslað sér völl á suðvesturhorni landsins með kaupum á Geo Iceland. Stöðugildi hjá Saga Travel eru að meðaltali um 20 þar af 16 á Akureyri þar sem höfuðstöðvar og söluskrifstofa félagsins er staðsett.