04. apríl, 2008
Í framhaldi af stofnfjáraðilafundi Sparisjóðs Höfðhverfinga hefur KEA gert samning um kaup á öllu stofnfé í sjóðnum með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins. Sparisjóður Höfðhverfinga er einn elsti sparisjóður landsins, stofnaður 1879. Í framhaldinu er gert ráð fyrir því að auka eigið fé sparisjóðsins verulega til þess að efla sjóðinn.Það liggur fyrir að núverandi stofnfjáraðilar munu að einhverju leyti endurfjárfesta í sjóðnum sem og fjársterk fyrirtæki á starfssvæði sjóðsins og víðar. Í tengslum við þessi
viðskipti verður núverandi starfstöð fest í sessi á Grenivík. Í framhaldinu af þessum viðskiptum og hlutafélagavæðingu sparisjóðsins verður til sjálfeignarstofnun sem mun ráðstafa arði til menningar- og líknarmála á starfssvæði sparisjóðsins.
Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA er ánægður með þennan samning. „KEA hefur viljað fjárfesta og koma að eflingu og uppbyggingu fjármálafyrirtækja á starfssvæði sínu. Þetta er verkefni í þá veru og ekki það fyrsta en KEA var einn stofnenda Saga Capital fjárfestingabanka á sínum tíma. Þrátt fyrir erfið ytri skilyrði fjármálafyrirtækja um þessar mundir tel ég vera sóknarfæri og ég hlakka til að takast á við þetta verkefni. Það er ekki markmið KEA að eiga allt stofnfé sjóðsins til lengri tíma og ég geri ráð fyrir að fleiri fjárfestar komi að eflingu og stækkun sjóðsins mjög fljótlega. „
Jakob Þórðarson, formaður stjórnar Sparisjóðs Höfðhverfinga segir þennan samning vera niðurstöðu stefnumótunarvinnu stjórnar um að tryggja framtíðarrekstur með stækkun og eflingu sjóðsins um leið og tryggð eru sjónarmið um að fjármagn sitji eftir í samfélaginu og starfsstöð sjóðsins á Grenivík sé tryggð til
frambúðar. „Með samningi við KEA nást þessi markmið fram og stofnfjáraðilafundur hefur þegar samþykkt með öllum greiddum atkvæðum að vinna að lúkningu málsins í þessa veru. Ég er ánægður með þessa niðurstöðu og tel hana mikið heillaspor.“