KEA svf., fjárfestirinn Birkir Bjarnason, Matthías Rögnvaldsson, stofnandi og stjórnarformaður Stefnu ehf., og Björn Gíslason, framkvæmdastjóri Stefnu ehf., hafa fjárfest í 25% hlut í Stefnu ehf. Bæði er um að ræða hlutafjáraukningu sem og viðskipti með bréf félagsins. Hlutur KEA í viðskiptunum er þannig að eftir viðskiptin á KEA 15% eignarhlut í Stefnu.
Stefna þjónustar fjölbreytta flóru 500 viðskiptavina um allt land um margvíslega hugbúnaðartengda þjónustu. Fyrirtækið er með höfuðstöðvar á Akureyri og starfsstöðvar á höfuðborgarsvæðinu og í Svíþjóð. Starfsmenn eru 33 talsins.
Markmiðið með viðskiptunum er að styðja við fyrirtækið og áætlanir þess til áframhaldandi vaxtar, en fyrirtækið hefur á undanförnum fimm árum tvöfaldað umsvif sín og er nú orðið eitt af stærri hugbúnaðarhúsum landsins. Einnig er með viðskiptunum horft til þess að fylgja eftir þróun og markaðssetningu á nýjum vörum sem hafa verið í þróun hjá fyrirtækinu að undanförnu.
Matthías Rögnvaldsson, stjórnarformaður Stefnu og stofnandi, segir að viðskiptin séu ákveðin viðurkenning á því góða starfi sem hefur átt sér stað í Stefnu á undanförnum árum og hjálpi félaginu að fanga betur þau tækifæri sem framundan eru. Þá sé það einnig jákvætt að nýir hluthafar hafi sterk tengsl við Norðurland.
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA segist mjög áhugasamur um fjárfestingu félagsins í Stefnu enda starfar félagið á síbreytilegum markaði í örum vexti. Það eru margar áhugaverðar vörur og þjónustur í þróun hjá félaginu. Við höfum fylgst með uppbyggingu félagsins á síðustu árum og þegar færi gafst á því að fjárfesta í þessu áhugaverða félagi vafðist það ekki mikið fyrir okkur. Það er tilhlökkunarefni að slást í hópinn og reyna að styðja við það með öðrum hluthöfum og starfsmönnum að gera gott fyrirtæki betra.