Árshlutauppgjörið er samstæðuuppgjör KEA og fjárfestingarfélagsins Hildings ehf. en KEA á allt hlutafé í því félagi.
Heildareignir félagsins nema 5.178 millj.kr. í lok tímabilsins og skuldir 823 millj.kr. á sama tíma. Bókfært eigið fé er því 4.355 millj.kr. og eiginfjárhlutfall 84%.
Í kjölfar stefnumótunarvinnu í upphafi tímabilsins var skerpt á hlutverki félagsins en nú starfar það sem fjárfestingarfélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæði sínu.
Á aðalfundi félagsins í maí var ákveðið að breyta nafni félagsins í KEA svf. en auk þess var ákveðið að greiða eigendum félagsins um 40 millj.kr. í arð sem kemur til greiðslu í október n.k. en félagsmönnum hefur fjölgað mikið á árinu eða um 3.000 og eru þeir nú rúmlega 12.000 talsins.
Þann 19. júní s.l. varð KEA 120 ára.
Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA er sáttur við uppgjörið m.t.t. aðstæðna á fjármála- og fjármagnsmörkuðum og þeirrar fjárfestingastefnu sem félagið fylgir. Sem stendur er mest af eignum félagsins bundið í eignaflokkum sem gefa fastar tekjur s.s. á peningamarkaði og í verðtryggðum skuldabréfum. Sú ávöxtun hefur gefið ágætlega af sér í samanburði við innlendan hlutabréfamarkað á þessu tímabili. Jafnfram segir Halldór að órói í kringum íslensku bankana frá því í vetur hafi haft mikil áhrif á veltu og umsvif fjárfestingaverkefna. Stærri fjárfestingaverkefni félagsins ganga vel og undirliggjandi rekstur í samræmi við áætlanir.
Sjá 6 mánaða uppgjör á pdf formi