Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, og Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, afhjúpa minnisvarðann Samstöðu.
Laugardaginn 4. febrúar var þess minnst að hundrað ár eru liðin frá því að samfellt starf verkalýðshreyfingarinnar við Eyjafjörð hófst, en Verkamannafélag Akureyrar, forveri Einingar-Iðju, var stofnað árið 1906. Af þessu tilefni var afhjúpaður minnisvarðinn “Samstaða” sem er gjöf KEA til hins vinnandi manns.Minnisvarðinn var unninn af listamanninum Jóhanni Ingimarssyni – Nóa. Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sótti Akureyringa heim af þessu tilefni og afhjúpaði minnisvarðann. Við þetta tækifæri ávarpaði Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, gesti og sagði meðal annars. Ólíklegt er að það fólk sem reið til stofnfundar KEA fram að Grund árið 1886 hafi litið á ferðina sem fyrstu sporin í langri ferð, ferð sem ætti eftir að kalla fjölmarga Eyfirðinga til fylgdar, suma langa leið, aðra skemmri. Það sem markaði upphaf þess áfanga sem við fögnum í dag átti sér svo stað tuttugu árum síðar þegar Verkmannafélag Akureyrar var stofnað. Þarna voru á ferð hugsjónamenn sem trúðu því að samstaðan gæti skilað þeim bættum kjörum og að í krafti fjöldans næðu þeir að tryggja bætt lífskjör. Það var – á sama hátt – trúin á samstöðu og samvinnu sem hvatti menn til dáða við upphaf verkaðlýsstarfs á Akureyri . Af þessu má ljóst vera að það er vel við eigandi og með miklu stolti sem KEA færir hinum vinnandi manni að gjöf glæsilegan minnisvarða sem hefur hlotið nafnið “Samstaða”. Hann mun standa sem tákn um það mikla og góða starf sem unnist hefur í samfelldu starfi verkalýðsfélaga í heila öld. Ég óska verkalýðsfélögum við Eyjafjörð og félagsmönnum þeirra til hamingju með daginn. Góðar stundir.