Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, afhenti nýlega HL-stöðinni á Akureyri styrk að fjárhæð 2,5 milljónir króna til tækjakaupa.HL- stöðin er félag hjarta- og lungnaveikra á Akureyri og hefur aðsetur að Bjargi. Stöðin var stofnuð árið 1991 af SÍBS, Landssamtökum hjartasjúklinga og Hjarta- og æðaverndarfélagi Akureyrar. Á stöðinni stunda lungnasjúklingar og þeir sem hafa gengist undir hjartaaðgerðir, markvissa viðhalds- og uppbyggingarþjálfun undir leiðsögn lækna og sjúkraþjálfara.
Þorsteinn Þorsteinsson, formaður félagsins, segir að styrkir sem þessir geri stöðinni kleift að viðhalda þeim tækjabúnaði sem stöðin þarfnast. Fylgst er með öllum sem þjálfa í stöðinni með hjartagæslutæki sem gefur til kynna ef koma fram frávik, þannig að einnig er um forvörn að ræða.