KEA hefur endurnýjað styrktarsamninga við Íþróttafélagið Þór og Knattspyrnufélag Akureyrar.
KEA mun áfram verða einn af aðalstyrktaraðilum félaganna en um er að ræða heildarsamninga sem taka til allra deilda
félaganna og gilda til eins árs. Halldór Jóhannsson
undirritaði samninginn fyrir hönd KEA, Sigfús Helgason fyrir hönd Þórs og Hrefna G. Torfadóttir fyrir hönd KA. Halldór segir að
hér sé um að ræða framhald á þeim stuðningi sem KEA hafi veitt félögunum á undanförnum árum, KEA sé
ákaflega stolt af því að styrkja íþrótta- og æskulýðsstarf á félagssvæðinu. Sigfús og Hrefna
segja að styrktarsamningurinn við KEA sé mjög mikilvægur fyrir íþróttafélögin og efli verulega íþrótta- og
æskulýðsstarf á Akureyri. Virkir íþróttaiðkendur hjá Þór og KA eru hátt í tvö þúsund
talsins.