Nýlega var gengið frá kaupum KEA á 17% eignarhlut í fiskvinnslufyrirtækinu Marúlfi á Dalvík í tengslum við hlutafjáraukningu hjá félaginu. Marúlfur hefur sérhæft sig í vinnslu á steinbít og hlýra fyrir Evrópumarkað, einkum Frakkland og Þýskaland. Hráefni er keypt víða að, meðal annars af norskum línuskipum. Hjá félaginu eru unnin um 1600 tonn á ári en að sögn Guðmundar St. Jónssonar, framkvæmdastjóra, er framtíðarmarkmið að auka vinnslu hjá félaginu: „Þessi hlutafjáraukning gerir félagið betur í stakk búið til að vaxa og það er markmið okkar þótt auðvitað geti það tekið einhvern tíma. Félagið hefur fram til þessa eingöngu verið í eigu heimamanna á Dalvík en það breikkar og styrkir hluthafahópinn að fá KEA inn í hann.“ Hjá Marúlfi hafa starfað um 20 manns og vonast Guðmundur til þess að fjölga megi störfum í framtíðinni fremur en hitt.