Þessi mynd var tekin þegar fyrsta vél Air Greenland lenti á Akureyrarflugvelli, en sem kunnugt er var Air Greenland með beint áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar fyrir fáum árum.
KEA hefur birt skýrslu sem unnin var fyrir félagið um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til Evrópu. Skýrslan var unnin af Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri fyrir KEA og hafa niðurstöður hennar nú þegar átt þátt í því að efla samgöngur til og frá svæðinu.Markmið KEA með úttektinni var að kanna möguleika á millilandaflugi m.t.t. farþegaflugs og fraktflugs frá áðurnefndum svæðum enda myndi slíkt stuðla að bættum lífsskilyrðum og auka samkeppnishæfni atvinnulífs á svæðinu. Frumdrög skýrslunnar voru kynnt á fjölmennum fundi í júní síðastliðnum og var góð fundarsókn talin vera til marks um þann mikla áhuga sem íbúar hafa á efldum samgöngum til og frá svæðinu og ljóst að bættar samgöngur skapa tækifæri m.a. í ferðamannaþjónustu og útflutningi á ferskum fiskafurðum. Í skýrslunni kemur skýrt fram mikilvægi þess að hafin sé vinna við lengingu flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli og jafnframt kemur fram að einn af vænlegustu kostum í stöðunni væri svokallað þríhyrningsflug – þ.e. að tengja saman Keflavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og flugvelli í Evrópu. Sem kunnugt hefur Iceland Express flugfélagið nú tilkynnt að það muni hefja áætlunarflug milli Akureyrar og Kaupmannahafnar í vor og verður flogið tvisvar í viku. Við kynningu á þessari flugleið vísaði Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri félagsins til þess að heimamenn hefðu lagt í mikla undirbúningsvinnu – m.a. skýrsluna sem KEA fól RHA að vinna. Orðrétt var haft eftir framkvæmdastjóra Iceland Express: "Það sem hefur verið lykilatriði í ákvörðun Iceland Express að hefja millilandaflug frá Akureyri eru þær rannsóknir sem gerðar hafa verið á markaðssvæðinu og upptökusvæði flugvallarins. Þessar rannsóknir gerðu okkur auðvelt að taka þessa viðamiklu og áhættusömu ákvörðun því hún byggir á traustum grunni sem og mikilli samstöðu hagsmunaaðila á svæðinu sem hafa náð umtalsverðum árangri í að móta heildarstefnu um að gera norðurland að áhugaverðum kosti"
Sjá skýrslu KEA um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi til Evrópu