Í dag 19. júní er KEA 120 ára. KEA er eitt af elstu starfandi fyrirtækum á Íslandi. Upphaf sögu KEA má rekja til fundar á Grund í Eyjafirði þann 19. júní 1886 þegar hópur manna kom saman og stofnaði Pöntunarfélag Eyjafjarðar, en hálfu ári síðar var nafninu breytt í Kaupfélag Eyfirðinga. Upphaflegur tilgangur félagsins var að útvega félagsmönnum góðar vörur á hagkvæmu verði og þó að saga KEA spanni vítt svið og mikil umsvif er það svo að ennþá vinnur KEA í þágu félagsmanna með hliðstæðum hætti, m.a. annars með öflun viðskiptakjara í gegnum KEA kortið. KEA er í dag fjárfestingarfélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæði sínu.
Í stað þess að halda sjálfu sér afmælisveislu af þessu tilefni ákvað félagið að ráðstafa verulegum fjármunum til eflingar heilbrigðisþjónustu á starfssvæði sínu með því að gefa FSA færanlegt ómskoðunartæki. Það er von félagsins að gjöfin muni hafa fyrirbyggjandi áhrif, bæti öryggi og auki velferð.