23. september, 2004
Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga svf. samþykkti á fundi sínum 22. september 2004 að selja allan hlut félagsins í Kaldbaki hf. sem var að nafnverði kr. 473.946.912.- eða 27,02% af heildarhlutafé Kaldbaks hf. Sölugengi var kr. 7,90 fyrir hverja krónu nafnverðs og var söluverð því kr. 3.744.180.605.- HlutuStjórn Kaupfélags Eyfirðinga svf. samþykkti á fundi sínum 22. september 2004 að selja allan hlut félagsins í Kaldbaki hf. sem var að nafnverði kr. 473.946.912.- eða 27,02% af heildarhlutafé Kaldbaks hf. Sölugengi var kr. 7,90 fyrir hverja krónu nafnverðs og var söluverð því kr. 3.744.180.605.- Hluturinn var í milliuppgjöri Kaupfélagsins 30. júní 2004 bókfærður á kr. 1.244.112.435 og mun því söluhagnaður að fjárhæð kr. 2.500.068.170 færast í ársuppgjör félagsins 31. desember 2004. Kaupandi hlutabréfanna í Kaldbaki hf. er Kaldbakur sjálfur.
Stjórn Kaupfélagsins samþykkti samhliða að kaupa hlut í Samherja hf. að nafnverði kr. 166.000.000.- sem eru 10,00% af heildarhlutafé félagsins. Kaupgengi var kr. 12,60 fyrir hvern hlut og kaupverð því kr. 2.091.600.000.- Seljandi hlutabréfanna er Kaldbakur hf. Samherji stundar umfangsmikla útgerð og fiskvinnslu við Eyjafjörð en einnig víðar á Íslandi og erlendis. Kaupfélagið lagði áherslu á að fá keyptan stóran hlut í Samherja og bindur miklar vonir við starfsemi félagsins á næstu mánuðum og árum. Kaupfélagið lítur á sig sem kjölfestufjárfesti í Samherja.
Kaldbakur hf. yfirtók 31. desember 2001 flestar eignir Kaupfélags Eyfirðinga svf. svo sem eignarhluti í fyrirtækjum í verslun, iðnaði og úrvinnslu landbúnaðarafurða og einnig allar fasteignir Kaupfélagsins. Kaldbakur hefur á undanförnum þremur árum unnið úr þeim eignum og selt margar þeirra með góðum ávinningi. Kaldbakur hefur einnig stundað viðskipti með félög skráð í Kauphöll Íslands og náð þar góðum árangri. Á undanförnum mánuðum hefur Kaldbakur lagt aukna áherslu á fjárfestingar utan Íslands. Kaupfélagið og Kaldbakur hafa því þróast í nokkuð ólíkar áttir.
Kaupfélag Eyfirðinga ákvað að nýta tækifæri sem gafst til að innleysa mjög mikinn hagnað með að selja alla hluti sína í Kaldbaki hf. Viðskiptin voru gerð í fullri sátt við stærstu meðeigendur Kaupfélagsins í Kaldbaki. Mörg þúsund félagsmenn Kaupfélagsins eru hluthafar í Kaldbaki og telur Kaupfélagið allar horfur á að hag þeirra verði vel borgið í framhaldinu.
Kaupfélagið fær greiddar um 1.653 millj. kr. í reiðufé vegna sölunnar á Kaldbaki og losar þannig um mikla fjármuni. Þeir verða ávaxtaðir á varfærinn hátt og einhver hluti þeirra nýttur til fjárfestingarverkefna á starfssvæði Kaupfélagsins á næstu árum, eftir því sem tækifæri gefast til.
Kaupfélag Eyfirðinga svf. hefur ekki lengur með höndum eiginlegan atvinnurekstur heldur starfar sem byggðafestufélag. Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunum félagsmanna og efla búsetu á félagssvæðinu, sem nær yfir Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur. Þeim tilgangi sinnir félagið einkum með að:
1. Hafa með höndum umsjón og eignarhald á hlutafé KEA í hlutafélögum og öðrum félögum og taka þátt í stjórnun þeirra.
2. Ávaxta eignir KEA og ráðstafa hæfilegum arði af þeim til félagsmanna sinna og til eflingar atvinnu og mannlífs á félagssvæðinu.
3. Hafa frumkvæði að því að stofna til fjárfestingar og nýsköpunar í atvinnurekstri á félagssvæðinu og kalla eftir samstarfi við opinbera aðila, við fyrirtæki, fjárfesta og einstaklinga í því skyni að efla atvinnulíf.
4. Leita samninga um viðskiptakjör fyrir félagsmenn.
Félagsmenn í Kaupfélagi Eyfirðinga svf. eru á áttunda þúsund talsins og eiga allir jafnan hlut.
Nánari upplýsingar veitir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri, í síma 460 3400.