Hildingur ehf. hefur keypt eignarhlut í Miðlun ehf. og undirrita félögin í dag samkomulag um uppbyggingu á fullkomnu samskiptaveri á Akureyri. Samskiptaverið verður staðsett að Glerárgötu 36 og mun sinna verkefnum í símsvörun og úthringingum fyrir fyrirtæki og stofnanir um land allt.
Að mati forsvarsmanna Miðlunar er Akureyri kjörinn staður til uppbyggingar á slíkri starfsemi þar sem allar aðstæður eru góðar. Vinnumarkaður er stór með nægilegu framboði af hæfu fólki, aðstaða er til fyrirmyndar og engar tæknilega hindranir standa lengur í vegi fyrir því að veita slíka þjónustu á landsbyggðinni. Reiknað er með 10-12 störfum í fyrstu skrefum uppbyggingarinnar og stefnt að 30-40 manna vinnustað á næstu þremur árum.
Að sögn Bjarna Hafþórs, framkvæmdastjóra Hildings, er mikil ánægja með þessa fjárfestingu í Miðlun og uppbyggingu samskiptavers á Akureyri og mikið traust er bundið við að stjórnendur félagsins standi myndarlega að uppbyggingunni. Samhliða þeirri uppbyggingu er markmiðið að efla Miðlun til enn frekari sóknar á höfuðborgarsvæðinu.
Miðlun hefur annast símsvörun fyrir fyrirtæki og stofnanir og einnig rekið þjónustuver Gulu línunnar undanfarna tvo áratugi. Miðlun hefur einnig starfrækt söluver en verkefni þess felast í hverskonar sölu á vörum og þjónustu fyrir viðskiptavini Miðlunar. Samstarfsaðilar Miðlunar eru stór fyrirtæki í fjölmiðlun, flugþjónustu, fjármálastofnanir, opinberar stofnanir og stórir og smáir aðilar í heildsölu og smásölu. Hjá félaginu starfa nú 15 manns og er ekki fyrirhugað að fækka starfsfólki í Reykjavík samhliða opnun starfseminnar á Akureyri.
Vöxtur í úthýsingu símaþjónustu
Árni Zophoníasson, stjórnarformaður Miðlunar, segir augljóst að sú þjónusta sem fyrirtækið veitir geti stuðlað að því að opinberar stofnanir flytji hluta starfsemi sinnar norður til Akureyrar. Hjá Miðlun sé löng reynsla og mikil fagþekking á sviði símaþjónustu sem opinberir aðilar geti nýtt sér. Þá sé ljóst að fyrirtæki séu í vaxandi mæli að úthýsa þjónustu af þessu tagi og nýta sér álagsþjónustu í símsvörun. Gott dæmi um það er undirritun viljayfirlýsingar við Eimskip sem fram fer í dag um samstarf varðandi álagsþjónustu.
Fyrirtæki kjósa í auknu mæli að úthýsa hluta starfsemi sinnar til sérhæfðra fagaðila, einfalda þannig rekstur sinn og auka áherslu á meginstarfsemi sína. Miðlun sérhæfir sig í viðskiptavinatengslum og býður fyrirtækjum og stofnunum þjónustu á því sviði. Þjónustan felst í símsvörun, skráningu upplýsinga, eftirfylgni söluherferða, sölu á vörum og þjónustu ásamt öðrum verkefnum sem snúa að samskiptum við viðskiptavini. Mikil sóknarfæri eru á þessum markaði og kannanir benda til aukins áhuga stjórnenda stærri fyrirtækja og stofnanna, sem sjá möguleika til að ná betri árangri og rekstrarhagræðingu með samstarfi við fagaðila á þessu sviði.
Eimskip – Viljayfirlýsing um samstarf varðandi álagsþjónustu
Eimskip og Miðlun hafa undirritað viljayfirlýsingu um samstarf sem snýr að símaþjónustu Eimskips. Markmiðið er að Miðlun taki yfirfall af skiptiborði Eimskips og svæðisskrifstofum félagsins þegar um slíkt er að ræða, veiti almennar upplýsingar, taki við skilaboðum og sendi áfram upplýsingar eftir því sem þörf gerist. Sem hluti af uppbyggingu öryggismála hjá Eimskip er það ennfremur markmiðið að Miðlun setji upp vara þjónustuborð sem verður til taks ef rekstrarvandamál koma upp í þjónustuborði Eimskips, símstöð eða viðskiptaþjónustu.
Björn Jónsson, framkvæmdastjóri Miðlunar, segir samkomulagið við Eimskip mjög gott fyrir báða aðila og sérstaklega ánægjulegt að það skuli gert samhliða opnun þessarar starfsstöðvar á Akureyri. Miðlun leggi mikla áherslu á fagleg vinnubrögð í þjónustu sinni og það beri vott um traust til fyrirtækisins þegar Eimskip, eitt öflugasta og framsæknasta fyrirtæki landsins, leiti eftir samstarfi af þessu tagi.