Á aðalfundi KEA sem fram fór í gærkvöldi kom fram að hagnaður varð af rekstri félagsins á síðasta ári upp á 326 milljónir króna samanborið við 81 milljóna króna hagnað árið áður. Hreinar fjárfestingatekjur námu rúmum 525 milljónum króna og tæplega tvöfölduðust á milli ára. Eigið fé um síðustu áramót var tæpir 8,2 milljarðar króna, heildareignir tæpir 8,4 milljarðar á sama tíma og eiginfjárhlutfall samstæðunnar var 98%.
Félagið metur eignir sínar til gangvirðis í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla en það þýðir að afkoma félagsins ræðst af breytingu á verðmæti eignarhluta félagsins í fyrirtækjum en ekki af hlutdeild í afkomu þeirra.
Afkoma fyrirtækja sem KEA á eignarhluti í var breytileg á síðasta ári en heildarmat um verðmætabreytingu á þeim eignum var jákvætt og ávöxtun þess eignaflokks því viðunandi í ljósi aðstæðna og þeirrar staðreyndar að tæplega fjórðungur eigna félagsins eru í ferðaþjónustutengdri starfsemi. Ávöxtun lausafjár var viðunandi en afkoma af fjárfestingafasteignum óviðunandi. Heimsfaraldurinn sem hófst í upphafi ársins hefur haft nokkur áhrif á einstakar fjárfestingar félagsins en þó minni en gera hefði mátt ráð fyrir í upphafi. Þrátt fyrir að útlit sé fyrir batnandi ástand er enn nokkur óvissa um efnahagsleg áhrif heimsfaraldursins og er því erfiðara en ella að leggja mat á þau áhrif sem faraldurinn muni hafa á rekstur einstakra félaga til lengri tíma litið.
Ekki var fjárfest í nýjum verkefnum á árinu en aukið við fjárfestingar í SBA-Norðurleið og fjárfestingasjóðnum TFII.