Eiríkur S. Jóhannsson flytur aðalfundi skýrslu kaupfélagsstjóra.
"Nú þegar umbreytingarferli KEA er formlega lokið er mun auðveldara að meta hvernig til hefur tekist. Mér sýnist að margir sem áður töldu að dagar Kaupfélags Eyfirðinga séu taldir hafi horfið frá þeirri skoðun sinni. Á deildarfundum að undanförnu hefur verið gerð grein fyrir efnhagslegri stöðu KEA s"Nú þegar umbreytingarferli KEA er formlega lokið er mun auðveldara að meta hvernig til hefur tekist. Mér sýnist að margir sem áður töldu að dagar Kaupfélags Eyfirðinga séu taldir hafi horfið frá þeirri skoðun sinni. Á deildarfundum að undanförnu hefur verið gerð grein fyrir efnhagslegri stöðu KEA svf. og skilgetins afkvæmis þess, Kaldbaks. Leikur enginn vafi á því að bæði standa félögin traustum fótum og eru tilbúin til þeirra verka sem þeim er ætlað að vinna að. Starfsemi Kaupfélags Eyfirðinga hefur byggt á virkri þátttöku félagsmanna. Vona ég að sú umgjörð sem félagið býr að í dag muni verða til þess að fleiri félagsmenn muni sjá hag sínum betur borgið með þátttöku í félaginu um ókomin ár," sagði Eiríkur S. Jóhannsson, kaupfélagsstjóri KEA svf., í ávarpi sínu á aðalfundi félagsins í gær. Eiríkur gaf þar aðalfundi skýrslu kaupfélagsstjóra í síðasta sinn þar sem hann lét af störfum í gær og tók við starfi framkvæmdastjóra Kaldbaks, dótturfélags KEA svf. Sem kunnugt er urðu þau tímamót um síðustu áramót að allar rekstrareiningar KEA höfðu verið færðar yfir í sjálfstæð fyrirtæki og voru þá tekin út úr rekstri KEA yfir í eignarhaldsfélagið Kaldbak. Frá áramótum hefur KEA því ekki verið með neinn beinan rekstur í eigin nafni en Kaldbakur hefur séð um eignavörslu og framkvæmdastjórn.
Erfitt efnahagsumhverfi
Eiríkur fór yfir reksturinn á síðasta ári og sagði KEA hafa orðið fyrir barðinu, líkt og öll önnur íslensk fyrirtæki, á óróleika í efnahagsumhverfi, s.s. háu gengi krónunnar, háu vaxtastigi í landinu og miklum kostnaðarhækkunum. Mikil verðbólga hafi haft umtalsverð áhrif á reksturinn og annað árið í röð hafi úrvalsvísitala hlutabréfa lækkað milli ár.
Eiríkur gerði grein fyrir afkomu helstu dótturfyrirtækja. Samkaup hf. var á síðasta ári gert upp með 146 milljóna króna hagnaði eftir skatta og sagði Eiríkur ljóst að samruni Samkaupa og Matbæjar á sínum tíma hafi reynst happadrjúgur. Rekstur Hagræðis hf., sem rekur lyfjaverslanir undir merkjum Lyf og heilsu, gekk samkvæmt áætlunum í fyrra og skilaði 23 milljóna króna hagnaði á árinu. Norðurmjólk skilaði afkomu undir væntingum og sagði Eiríkur fyrst og fremst um að kenna gengisfalli krónunnar og háu vaxtastigi. Félagið var gert upp með 17 milljóna króna hagnaði áður en tekið hafði verið tillit til sérstakrar greiðslu til innleggjenda. Að henni meðtaldri var 37 milljóna króna halli á félaginu.
Kaupin á Goða þung í skauti
Eiríkur sagði að stærsta verkefni samstæðunnar á síðasta ári hafi verið kaup Norðlenska á vinnslum Goða hf. Þrátt fyrir að þetta verkefni hafi haft neikvæð áhrif á rekstur Norðlenska á síðasta ári sagðist Eiríkur hafa fulla trú á að með kaupunum hafi verið rennt styrkari stoðum undir rekstur félagsins. "Nú þegar sjáum við afkomubata á rekstri félagsins. Velta félagsins hefur aukist til muna og meiri möguleikar í rekstrinum en áður," sagði Eiríkur. Norðlenska var rekið með 270 milljóna króna tapi í fyrra og má rekja ríflega helmning þess taps til kaupanna á Goða. Kostnaður vegna lokana á vinnslum var mikill en Eiríkur sagði markmiðin fyrir yfirstandandi ár að ná jafnvægi í reksturinn.
Loks gat Eiríkur um mjög góða afkomu á Samherja, sem félagið á nú stóran hlut í eftir sameiningu Samherja og Snæfells á sínum tíma.
Í heild var tap á rekstri KEA ríflega 600 milljónir króna í fyrra. Tap fyrir fjármagnsgjöld nam 48 milljónum króna. Rekstrartekjur námu rösklega 6 milljörðum króna en lækkun rekstrartekna milli ára skýrist af því að velta Matbæjar hefur nú færst yfir í Samkaup.
Grunnur að nýrri sókn
Eins og áður segir lét Eiríkur S. Jóhannsson af starfi kaupfélagsstjóra í gær og í lok skýrslu sinnar sagðist hann líta á þann fjögurra ára tíma, sem hann gegndi starfinu, sem tímabil umbreytinga en jafnframt sem ánægjulegan tíma. Eiríkur hnykkti á að nú standi félagið uppi með eignir að verðmæti vel á þriðja milljarð króna og þess albúið að takast á við ný verkefni á félagssvæðinu sem geti styrkt samfélagið, bætt atvinnu- og mannlíf.
"Kaupfélag Eyfirðinga er ekkert venjulegt félag. Félagsform þess og nálægð við samfélagið allt eignar sér það með mismiklum hætti. Fólk gerir miklar kröfur til félagsins sem eru eðlilegar og sjálfsagðar, en sumar þó mjög óraunhæfar. Aðrir hafa horn í síðu félagsins og telja kaupfélagið fjandsamlegan óvin en mikill meirihluti fólks er jákvæður í garð félagsins og skynjar mikilvægi þess í fortíð og nútíð. Nú er annarra að móta framtíð félagsins. Við þetta verk hafa menn grunn sem gott er að byggja á," sagði Eiríkur S. Jóhannsson.