Gengið til samninga um kaup á Norðlenska

Stjórn Kaupfélags Eyfirðinga svf. samþykkti á fundi seint á laugardag að félagið gangi til samninga við Kaldbak hf. um kaup á öllum hlutabréfum þess félags í Norðlenska matborðinu hf. (Norðlenska). Um er að ræða 99% eignarhlut. Í aðdraganda þessarar ákvörðunar komu félög bænda í Eyjafirði og Suður-ÞStjórn Kaupfélags Eyfirðinga svf. samþykkti á fundi seint á laugardag að félagið gangi til samninga við Kaldbak hf. um kaup á öllum hlutabréfum þess félags í Norðlenska matborðinu hf. (Norðlenska). Um er að ræða 99% eignarhlut. Í aðdraganda þessarar ákvörðunar komu félög bænda í Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu á framfæri við félagið formlegri beiðni um að KEA hefði forgöngu að kaupum en í framhaldinu er ætlunin að vinna að því að tryggja bændum beina aðkomu og eignarhald að félaginu, enda miklir hagsmunir í húfi fyrir bændur á félagssvæði KEA að tryggja rekstur fyrirtækisins. Aðrir hagsmunaaðilar hafa einnig lýst áhuga á samstarfi við KEA um kaup á Norðlenska. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur Norðlenska átt við verulegan rekstrarvanda að etja að undanförnu, sem fyrst og fremst hefur skapast af þeim aðstæðum sem uppi hafa verið á kjötmarkaði í landinu. Með kaupum KEA á fyrirtækinu er tryggt fyrirtækið haldi áfram sínum umfangsmikla rekstri í slátrun og kjötvinnslu á Húsavík og Akureyri og búi þar með bændum á félagssvæðinu öryggi hvað varðar slátrun og sölu á framleiðslu þeirra. Við kaup á Norðlenska hefur KEA frumkvæði að endurfjármögnun félagsins sem tryggir að fyrirtækið geti gert upp við bændur í yfirstandandi sláturtíð. Norðlenska. rekur sláturhús fyrir sauðfé á Húsavík og stórgripi á Akureyri. Það rekur einnig kjötvinnslur á sömu stöðum með nýrri og fullkominni tölvustýrðri flæðilínutækni sem bæði eykur hagkvæmni vinnslunnar og býður einnig upp á rekjanleika vörunnar sem ekki hefur þekkst fyrr hér á landi í kjötvinnslu. Hjá Norðlenska starfa um 180 manns. Kaupfélag Eyfirðinga svf. hefur ekki lengur með höndum eiginlegan atvinnurekstur heldur starfar sem byggðafestufélag og segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri félagsins, að með fyrirhuguðum kaupum á Norðlenska sé félagið að rækja sitt hlutverk með því að tryggja mikilsverða hagsmuni bænda á svæðinu, sem og þau fjölmörgu störf og margfeldisáhrif þeirra á svæðinu sem einnig eru í húfi. “Tilgangur KEA svf. með kaupum er, eins og áður segir, að tryggja rekstur Norðlenska, endurfjármagna fyrirtækið og tryggja hagsmuni framleiðenda. Síðan er ætlunin að vinna að því með bændum og öðrum hagsmunaaðilum að finna leiðir til að þeir geti komið að rekstri félagsins. Þar til niðurstaða fæst í það mál verður með aðkomu KEA svf. að Norðlenska hægt að tryggja starfsemi fyrirtækisins og það er mikilvægast,” segir Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA.