Fundað með Landsbankanum um möguleg kaup á ÚA

Andri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, átti í gær fund með fulltrúum Landsbanka Íslands, þar sem hann kynnti áhuga KEA á hugsanlegum kaupum á Útgerðarfélagi Akureyringa, sem er ein þriggja stoða Brims ehf. – sjávarútvegssviðs Eimskipafélags Íslands. Á fundinum kynnti Andri Landsbankanum sjónarmið KEAAndri Teitsson, framkvæmdastjóri KEA, átti í gær fund með fulltrúum Landsbanka Íslands, þar sem hann kynnti áhuga KEA á hugsanlegum kaupum á Útgerðarfélagi Akureyringa, sem er ein þriggja stoða Brims ehf. – sjávarútvegssviðs Eimskipafélags Íslands. Á fundinum kynnti Andri Landsbankanum sjónarmið KEA til málsins og ítrekaði samþykkt stjórnar félagsins frá 1. október sl. þar sem framkvæmdastjóra var falið að taka upp viðræður við fulltrúa Landsbankans eða nýrrar stjórnar Eimskipafélagsins um fyrirhugaða sölu á ÚA. Orðrétt sagði í bókun stjórnar KEA frá 1. október: “KEA hyggst í framhaldinu kanna möguleika á að mynda hóp til að kaupa ÚA og tryggja þá miklu atvinnuhagsmuni sem eru af að félagið starfi áfram á Norðurlandi.” Síðastliðinn föstudag tilkynnti Eimskipafélagið til Kauphallar Íslands að stjórn þess hefði ákveðið í kjölfar athugunar að kanna möguleika á sölu Brims ehf. – í heilu lagi eða hlutum til eins eða fleiri kaupenda. Í kjölfar þessarar samþykktar átti framkvæmdastjóri KEA fund með fulltrúum Landsbankans, sem fyrr segir. Andri Teitsson segir að á þessum fundi hafi verið farið yfir málið og í framhaldinu muni Landsbankinn leggja fram ýmsar frekari upplýsingar, þ.m.t. verðmat á Brimi og einstaka fyrirtækjum innan þess. “Eins og við höfum áður sagt stendur okkar vilji fyrst og fremst til þess að tryggja áfram öflugan rekstur Útgerðarfélags Akureyringa, enda er félagið ein af öflugustu stoðum í atvinnulífinu á Akureyri og sömuleiðis kemur það að atvinnusköpun á Grenivík og í Þingeyjarsýslum. Í samræmi við bókun stjórnar KEA frá 1. október sl., um að KEA myndi kanna möguleika á því að mynda hóp um kaup á ÚA, höfum við rætt við Þorstein Vilhelmsson, stjórnarformann og einn aðaleiganda Fjárfestingafélagsins Afls, um mögulega aðkomu hans að málinu. Vilji KEA stendur til þess að fara mjög vandlega yfir þetta mál, til farsællar niðurstöðu fyrir alla sem að því koma. Við eigum von á nánari upplýsingum frá Landsbankanum varðandi verðhugmyndir o.fl. og að þeim fengnum verður tekin ákvörðun um næstu skref,” segir Andri Teitsson. Stærstur hluti eigna Kaupfélags Eyfirðinga er 27% hlutur í Fjárfestingafélaginu Kaldbaki og að sögn Andra kemur til greina að fjármagna hugsanleg kaup á ÚA með hluta af þeim eignarhlut.