Eignarhaldsfélagið Hraun í Öxnadal hefur nú safnað röskum tuttugu milljónum króna í hlutafé og hefur því nú yfir að ráða fjármagni til þess að hefja nauðsynlegar framkvæmdir og endurbætur á Hrauni. Hlutur KEA í félaginu er 2 milljónir króna að nafnverði.
Í núgildandi samþykktum fyrir Hraun í ÖxnaEignarhaldsfélagið Hraun í Öxnadal hefur nú safnað röskum tuttugu milljónum króna í hlutafé og hefur því nú yfir að ráða fjármagni til þess að hefja nauðsynlegar framkvæmdir og endurbætur á Hrauni. Hlutur KEA í félaginu er 2 milljónir króna að nafnverði.
Í núgildandi samþykktum fyrir Hraun í Öxnadal ehf. kemur m.a. fram að tilgangur félagsins sé að reka fræðasetur að Hrauni í Öxnadal, tengt minningu Jónasar Hallgrímssonar, kynna verk hans, líf skáldsins og náttúrufræðingsins og vinna með öðrum stofnunum í landinu við að efla lifandi og sögulega menningu. Jónas Hallgrímsson fæddist sem kunnugt er að Hrauni í Öxnadal árið 1807 og því styttist í tvær aldir verði liðnar frá fæðingu hans. Öxnadalurinn var Jónasi kær og víða má sjá það í ljóðum hans, trúlega þó hvergi greinilegar en í Dalvísu:
Fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum,
flóatetur, fífusund,
fífilbrekka, smáragrund!
Yður hjá ég alla stund
uni bezt í sæld og þrautum,
fífilbrekka, gróin grund,
grösug hlíð með berjalautum!
Gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum,
góða skarð með grasa hnoss,
gljúfrabúi, hvítur foss!
Verið hefur vel með oss,
verða mun það ennþá löngum,
gljúfrabúi, gamli foss,
gilið mitt í klettaþröngum!
Bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi,
sólarylur, blíður blær,
bunulækur fagurtær,
yndið vekja ykkur nær
allra bezt í dalnum frammi,
bunulækur blár og tær,
bakkafögur á í hvammi!
Hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar,
heyjavöllinn horfið á,
hnjúkafjöllin hvít og blá!
Skýlið öllu, helg og há,
hlífið dal, er geisa vindar,
hnjúkafjöllin himinblá,
hamragarðar, hvítir tindar!
Sæludalur, sveitin bezt!
Sólin á þig geislum helli,
snemma risin, seint þó setzt.
Sæludalur, prýðin bezt!
Þín er grundin gæðaflest,
gleðin æsku, hvíldin elli.
Sæludalur, sveitin bezt,
sólin á þig geislum helli.
Í framhjáhlaupi má geta þess að Nóbelskáldið Halldór Kiljan Laxness skrifaði árið 1928 um Jónas Hallgrímsson í Alþýðubókina. Þar komst skáldið m.a. að orði:
"Nú eru bráðum liðin hundrað ár síðan þessi útigángsmaður var á stjáki um flórhellurnar í Kaupinhöfn stúrinn og þrjóskulegur, einsog títt er um flibbalausa menn á biluðum skóm. Glóðin sem brann í augum hans lýsti fremur söknuði en von, enda týndist hann einn góðan veðurdag oní danskan herrans urtagarð og hefur ekki fundist síðan. Meðan hann var á mölinni setti hann saman fáeina kviðlínga um það sem hann elskaði mest, smávini sína blómin á íslandi, hreiðurbúana og hina margvíslegu fegurð sumardagsins heima, ásamt stúlku sem hann hafði kynst fyrir laungu. Hann var úngur maður, en gekk þó ekki heill til skógar, óskaði sér þess oft að hann væri "orðinn nýr". Því má síst gleyma að í sögunni um vanheilindi hans er falin harmsaga miklu dýpri en oss grunaði í bernsku, meðan ljóð hans og fögnuður sumardagsins léku á einn streing í brjóstum vorum. Hann var sem sagt flibbalaus, skólítill og auðnulaus, og einsog hann hafði spáð gleymdu menn hvar gröfin hans var jafnskjótt og halt var komið í kríng; þar sást ekki framar höfuðlútur ástvinur eftir að rekunum var kastað. Kanski má finna vinsamlegar skýríngar þess að menn skuli ekki hafa tekið ástfóstri við gröf hans. Það hefur sem sé ævinlega látið sem öfugmæli í eyrum íslenskra barna að honum skyldi nokkurntíma hafa verið búin gröf; hitt miklu trúlegra að hann hafi ekið glæstum vagni inn í hnúkafjöllin. Sannleikurinn er sá að hann dó ekki, heldur hefur haldið áfram að lifa í brjóstum vorum. Það er skoðun mín, að vér íslendíngar höfum aldrei átt betra skáld en Jónas Hallgrímsson."
Til stóð að halda aðalfund í Hrauni í Öxnadal ehf. fyrir lok ágúst, en honum var frestað og verður haldinn innan fárra vikna. Þar stendur til, samkvæmt upplýsingum Jóns Kr. Sólness, stjórnarmanns í Hraun í Öxnadal ehf., að staðfesta nýjar samþykktir félagsins og leggja línur með næstu skref. Félagið hefur þegar fest kaup á jörðinni og fengið yfirráðarétt yfir henni og fyrir liggur að laga húsakynni þar þannig að unnt sé að hefja rekstur fræðasetursins á staðnum.
Í vor var haldin svokölluð Fífilbrekkuhátíð á Hrauni og segir Jón Kr. að til standi að hún verði árlegur viðburður. Sömuleiðis sé vilji til þess að tengja fræðasetrið við Dag íslenskrar tungu ár hvert.
Sem fyrr segir er hlutur KEA í Hrauni í Öxnadal ehf. 2 milljónir króna. Stærsti hluthafinn í félaginu er hins vegar Menningarsjóður sparisjóðanna með 12 milljónir króna og þá kemur Sparisjóður Norðlendinga með 3 milljónir króna.