Upphaf fjárfestingasjóður sem er 100% dótturfélag KEA tók þátt í 100 mkr. hlutafjáraukningu hjá nýsköpunarfyrirtækinu Mýsköpun ásamt fleiri fjárfestum og félögum.
Mýsköpun ehf. sem stofnað var af hópi heimamanna í Mývatnssveit hefur um nokkurra ára skeið unnið að ýmsum rannsóknum á þörungum t.d. með því að einangra, greina og ákvarða ræktunarskilyrði örþörunga úr Mývatni, með framleiðslu og sölu í huga. Félagið stefnir að framleiðslu á tveimur mismunandi þörungum; Spirulina og Chlorella.
Þessi hlutafjáraukning mun fjármagna uppbyggingu á framleiðslu þörunga í litlum skala sem er nauðsynlegur undanfari stærri uppbyggingar á komandi árum. Markmiðið er að ná fyrst tökum á framleiðslunni í afmarkaðri einingu, tryggja gæðin og opna á söluleiðir. Á næstu mánuðum verða áætlanir um uppbyggingu á framleiðslu í fullri stærð útfærðar betur en sú uppbygging gæti kostað allt að 3 milljörðum króna.