Viðurkenningar Húsverndunarsjóðs fyrir endurbætur á eldri byggingum voru afhentar á árlegri vorkomuhátíð Akureyrarstofu á sumardaginn fyrsta.Þar tók Halldór Jóhannsson framkvæmdastjóri KEA við viðurkenningu fyrir endurbætur á Kaupvangsstræti 6, sem gengur venjulega undir nafninu Bögglageymslan er þar er nú til húsa veitingstaðurinn Friðrik V. Húsverndunarsjóður veitti einnig viðurkenningu vegna endurbyggingar Hafnarstrætis 53, sem nú hýsir Saga Capital fjárfestingabanka. KEA réðst á síðasta sumri í umfangsmiklar endurbætur á Bögglageymslunni en húsið hafði staðið ónotað og í slæmu ástandi um árabil. Bögglageymslan hefur sett mikinn svip á Grófargilið og þar með bæjarmynd Akureyrar í heila öld. Húsið var byggt sem sláturhús árið 1907 en auk þess hefur verið rekið í húsnæðinu mjólkursamlag, verslun, bögglageymsla o.fl. Líkt og önnur hús í Grófargili var það byggt upp í kringum starfsemi KEA og hefur alla tíð verið í eigu félagsins.