Bjarni Hafþór Helgason, nýráðinn fjárfestingastjóri KEA, hefur störf um áramót hjá KEA.
KEA hefur ráðið Bjarna Hafþór Helgason sem fjárfestingastjóra félagsins og mun hann hefja störf um áramót. Fjárfestingastjóri KEA annast framkvæmdastjórn tveggja dótturfélaga KEA, sem eru fjárfestingafélögin Hildingur og Upphaf en stofnfé þeirra félaga er um 1.700 milljónir króna.Bjarni Hafþór Helgason er fæddur árið 1957 og útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1983. Hann hefur auk þess löggildingu til verðbréfamiðlunar. Meðal fyrri starfa má nefna að 1986 – 1996 var hann framkvæmdastjóri Eyfirska sjónvarpsfélagsins, útibússtjóri Íslenska útvarpsfélagsins á Norðurlandi og frétta- og dagskrárgerðarmaður fyrir Stöð 2 og Bylgjuna. Á árunum 1996 – 2000 var hann framkvæmdastjóri Útvegsmannafélags Norðurlands og frá árinu 2000 hefur hann verið skrifstofustjóri Lífeyrissjóðs Norðurlands og m.a. annast skrifstofurekstur sjóðsins, markaðsmál, séreignardeild og starfað við eignastýringu. “Þetta er afar spennandi verkefni og mér fannst ekki hægt að hafna boði framkvæmdastjóra KEA um að takast það á hendur. Þetta mun byggja á nánu samstarfi við framkvæmdastjóra KEA og miðað við reynslu af okkar samstarfi á ég ekki von á öðru en það verði mjög gott og vonandi farsælt líka fyrir félögin og KEA í heild sinni,” sagði Bjarni Hafþór um ráðninguna.