Hefur alla burði til aukinnar sóknar
“Frá því ég stofnaði Stell fyrir 17 árum og til dagsins í dag hefur margt breyst. Fyrstu 3 árin var fyrirtækið rekið sem stimplagerð en árið 1992 bættist við ljósritun plasthúðun og innbindingar. Tækniframfarir á þessum tíma hafa verið miklar og í dag er ljósritun orðin stafræn og mikill meirihluti verkefna er prentaður beint út úr tölvu í ótrúlega miklum gæðum. Ég tel rétt að auka sérhæfingu Stell í stafrænni prentun enn frekar og sameining við Ásprent Stíl er að mínu mati mikilvægt skref í þá átt að veita viðskiptavinum mínum enn betri þjónustu á þessu sviði en áður,” segir Hallur.
Bjarni Hafþór Helgason, stjórnarformaður Ásprents Stíls, segir þetta mikilvægt skref í að hefja öfluga sókn í starfsemi félagsins. “Við munum kappkosta að fá aukin verkefni í framhaldinu, bæði frá fyrirtækjum hér norðan heiða og ekki síður annars staðar af landinu. Ásprent Stíll hefur nú alla burði til aukinnar sóknar á prentmarkaði á landsvísu og er í því sambandi sérstaklega horft til höfuðborgarsvæðisins,” segir Bjarni Hafþór, en hann er framkvæmdastjóri Hildings sem er stærsti eignaraðili Ásprents Stíls.
G. Ómar Pétursson, framkvæmdastjóri Ásprents Stíls ehf., segist fagna þessari nýjustu viðbót í fyrirtækið. “Við teljum mikla möguleika felast í sameiningu fyrirtækjanna, þótt starfsstöðvarnar verði áfram tvær. Nú getum við tekið að okkur prentverkefni af öllum stærðargráðum og unnið þau hraðar og hagkvæmar en áður, sem auðvitað kemur viðskiptavinum okkar til góða. Innan vébanda Ásprents Stíls er nú offsetprentsmiðja af stærstu gerð, stafræn prentsmiðja, límmiðaprentun, hönnunardeild og merkingadeild þannig að okkur eru allir vegir færir í þeirri samkeppni sem ríkir á markaðnum.”
Hildingur ehf., á tæplega 60% hlut í Ásprenti Stíl ehf. en Einar Árnason prentsmiðjustjóri, G. Ómar Pétursson framkvæmdastjóri og Hallur Jónas Stefánsson, framleiðslustjóri stafrænna prentlausna, eiga samtals ríflega 40% hlut í fyrirtækinu.