Á laugardaginn verður keppt í 21, 10 og 5 km en auk þess verður boðið upp á 3ja km skemmtiskokk. Mikil áhersla er lögð á að allir geti tekið þátt og að hver velji vegalengd og hraða á sínum forsendum.
Á föstudag verður skráningarhátíð á Glerártorgi kl. 15-18 þar sem keppendur geta skráð sig og þeir sem þegar hafa skráð sig geta þá sótt keppnisgögn. Á staðnum verður hægt að fá góð ráð um allt sem tengist hlaupum og hlaupabúnaði auk þess sem boðin verður fitumæling, blóðþrýstingsmæling og sjúkraþjálfarar gefa góð ráð. Hótel Kea og Vífilfell bjóða svo gestum skráningarhátíðarinnar pasta og drykk.
Á laugardaginn hefst dagskráin kl. 10:00 á Akureyrarvelli með ræsingu í hálfu maraþoni. Í framhaldinu hefst upphitun sem Jónsi stjórnar og ræst verður í aðrar vegalengdir kl. 11:00. Rás- og endamark er á Akureyrarvelli. Allir þátttakendur fá þátttökupening en auk þess verða glæsileg útdráttarverðlaun dregin úr nöfnum allra þátttakenda. Að hlaupi loknu bjóða Goði, Hótel Kea og Vífilfell til grillveislu.
Keppni í þríþraut fer fram samhliða hlaupinu og hefst hún í Akureyrarsundlaug kl. 9:00.
Á www.akureyrarhlaup.is má sjá nánari upplýsingar um Akureyrarhlaup KEA.