Fundurinn á Hótel KEA í dag var griðarlega vel sóttur og ljóst að þetta mál vekur áhuga fjölmargra.
Lenging flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli er ein meginforsenda þess að unnt sé að hefja reglubundið millilandaflug frá Akureyrarflugvelli. Þetta kom fram í máli Njáls Trausta Friðbertssonar, rekstrarfræðings og flugumferðarstjóra, sem kynnti í dag á fundi á Hótel KEA skýrslu sem hann hefur tekiðLenging flugbrautarinnar á Akureyrarflugvelli er ein meginforsenda þess að unnt sé að hefja reglubundið millilandaflug frá Akureyrarflugvelli. Þetta kom fram í máli Njáls Trausta Friðbertssonar, rekstrarfræðings og flugumferðarstjóra, sem kynnti í dag á fundi á Hótel KEA skýrslu sem hann hefur tekið saman um millilandaflug frá Norður- og Austurlandi. Fundurinn var gríðarlega vel sóttur og þurfti að bæta við fjölda stóla til þess að koma öllum fundarmönnum fyrir. Bendikt Sigurðarson, formaður stjórnar KEA, hafði á orði að þessi góða fundarsókn væri staðfesting á því að mikil þörf hafi verið á því að taka saman slíka skýrslu og fólk hefði augljóslega mikinn áhuga á þessu máli.
Kaupfélag Eyfirðinga kostaði samantekt skýrslunnar, sem var unnin undir merkjum Rannsóknastofnunar Háskólans á Akureyri.
Njáll Trausti fór vítt yfir sviðið í kynningu á skýrslunni. Hann sagðist telja að einn af vænlegum kostum í stöðunni væri svokallað þríhyrningsflug þ.e. að tengja saman Keflavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og flugvelli í Evrópu, en þessi kostur væri vart raunhæfur nema innlend flugfélög Icelandair og Iceland Express kæmu að málum. Fulltrúi Iceland Express var reyndar á fundinum í dag og nefndi að flutningar um Akureyrarflugvöll væri áhugaverður kostur sem ástæða væri til að skoða vel. Hann tók undir að brýnt væri að lengja flugbrautina og kom fram hjá stjórnarformanni KEA að hann vonaðist til að fyrir lok þessa mánaðar myndu skýrast í hvaða farveg það mál færi, en samgönguráðherra hefur gefið góð orð um lengingu flugbrautarinnar, m.a. á fundi um samgöngumál á Akureyri sl .vetur.
Fram kom hjá Njáli Trausta að flutningar á ferskum fiskflökum frá fyrirtækjum á Norður- og Austurlandi hafi stóraukist á undanförnum árum og vöxtur í þessum útflutningi væri fyrst og fremst af þessu svæði. Þessi staðreynd væri örugglega til þess fallin að styrkja mögulegt millilandaflug frá Akureyri.
Arngrímur Jóhannsson, flugstjóri, sagði að gott væri að vera bjartsýnn, en mörgum efnahagslegum spurningum væri ósvarað í þessum efnum. Arngrímur sagði sjálfsagt að skoða málið frá öllum hliðum, en jákvæð niðurstaða væri ekkert auðveldlega í sjónmáli vegna ýmissa kostnaðarþátta.
Ásbjörn Björgvinsson, formaður stjórnar Markaðsskrifstofu ferðamála á Norðurlandi, sagði að ferðaþjónustan á svæðinu styddi heilshugar að kannað væri niður í kjölinn með mögulegt beint flug til Akureyrar, enda væri það klárlega eitt af brýnustu hagsmunamálum ferðaþjónustufyrirtækja á Norðurlandi.
Aðalsteinn Helgason hjá Samherja sagði að þróunin væri sú að æ meira af fiski fari ferskt á markaði erlendis, þróunin sé nákvæmlega sama í fiskinum og öðrum greinum matvælaframleiðslu. Þess vegna sé ekki annað sýnt en að vöxturinn í útflutningi á ferskum fiski haldi áfram. Aðalsteinn segir að Samherjamenn séu áhugasamir um útflutning í flugi frá Akureyri, en hann benti á að markaðurinn gerði kröfu um að fá fiskinn sex daga vikunnar og augljóslega væri erfitt að verða við því með beinu flugi frá Akureyri. Það gæti hins vegar klárlega verið hluti af flutningakeðjunni. Aðalsteinn nefndi að á Suðurnesjum hafi mörg minni sjávarútvegsfyrirtæki sprottið upp vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll og þessi fyrirtæki byggðu fyrst og fremst á ferskfiskútflutningi. Það sama gæti orðið uppi á teningnum í Eyjafirði og nágrannabyggðum kæmi beint flug frá Akureyrarflugvelli.